145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

starfsáætlun og framhald þingstarfa.

[13:49]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vildi taka undir það sem hv. þm. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir talaði um áðan, um skipulag. Sá sem hér stendur tekur mjög alvarlega hlutverk sitt að vera alþingismaður og þær umræður sem hér eru og finnst mjög mikilvægt að við þingmenn höfum tækifæri til þess að undirbúa okkur fyrir umræður og störfin hérna í þinginu. Ég vildi benda aðeins á dagskrá dagsins í dag, að eftir umræður um fjögurra ára samgönguáætlun 2015–2018 er á dagskrá: Stofnun millidómstigs, almennar íbúðir, staða stofnframlaga, vextir og verðtrygging, þ.e. verðtryggð neytendalán, og stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð. Þetta eru allt saman mjög mikilvæg mál sem á ekki að ræða á einhverjum hlaupum. Ég velti fyrir mér, ef umræðan klárast ekki í dag, verður þá fundur á mánudaginn til að ræða þau mál? Það er mjög brýnt að við fáum fund með (Forseti hringir.) hæstv. forseta til að ræða þetta og fá einhverja sýn fram í tímann.