145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[11:26]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég skrifa undir þetta nefndarálit með fyrirvara og langaði að koma hér örstutt og greina frá í hverju hann felst. Þegar frumvarp til laga um breytingar á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna kom til umræðu á Alþingi bæði beindi ég fyrirspurnum til hæstv. fjármálaráðherra um það hvort þessi lífeyrismál hefðu verið skoðuð í samhengi sem og ræddi það í ræðum og svo tók ég þetta samhengi aftur upp í ræðum á Alþingi við 2. umr. um breytingu á lögum um almannatryggingar. Ég hef frá upphafi talið mjög mikilvægt að þegar við fjöllum um breytingar á lífeyristökualdri gerum við það heildstætt.

Ég er þess vegna ánægð með þær breytingar sem er verið að gera milli 2. og 3. umr. þar sem á að fara í betri skoðun á þessu, en tel bagalegt hversu seint tillögurnar eru komnar fram. Ég næ ekki á þessum stutta tíma að átta mig alveg á því hvort þetta sé nægjanlegt, hvort við náum alveg utan um málið með þessum breytingartillögum, þótt ég sé sannarlega viss um að þær séu til bóta og er þess vegna með á málinu.

Svo finnst mér líka mikilvægt að ítreka varðandi hækkun á lífeyrisaldri upp í 70 ár, sem við í Vinstri grænum höfum ekki lagst gegn en höfum ítrekað, og ég vil ítreka það aftur hér og nú, að við verðum þá að skoða mjög vel hækkun á lífeyristökualdri með tilliti til atvinnutækifæra eldra fólks, því að við vitum öll að eldra fólk hefur oft átt erfitt um vik með að fá vinnu og við þurfum ákveðna viðhorfsbreytingu í samfélaginu vegna þess. Svo verðum við líka að hafa í huga að nýgengi örorku eykst mjög, sérstaklega hjá konum þegar komið er yfir 60 ára aldur. Við megum því búast við því að nýgengi örorku aukist á aldursbilinu 67–69 ára. Þetta finnst mér mikilvægt að verði líka haft undir þegar farið er í skoðun á þessum málum.

Að því sögðu skrifa ég undir þetta nefndarálit þótt með fyrirvara sé og styð þær breytingar sem eru lagðar til.