146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

lokafjárlög 2015.

8. mál
[17:24]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Við vitum auðvitað hvernig þetta er til komið. Þetta er til komið vegna framkvæmda sem áttu að vera sérstaklega fjármagnaðar en áttu í rauninni aldrei að fara inn í þetta hefðbundna form sem við þekkjum hjá Vegagerðinni, ekki frekar en göngin á Bakka áttu ekki að fara inn í samgönguáætlun en eru þar samt núna. Það kemur niður á framkvæmdafé, sem átti heldur ekki að gerast. Þetta er eitt af því sem við erum að takast á við með þessu neikvæða bundna eigin fé Vegagerðarinnar. Mér finnst það skipta máli í reikningsbókhaldinu að það sé lagfært og tekið út. Sama á í rauninni við um aðrar stofnanir sem við erum hér að fjalla um, þó að nákvæmlega þetta gildi kannski ekki um þær, ég man reyndar ekki eftir öðrum stofnunum sem eru í þessum sömu sporum. En auðvitað gildir það um svo margar.

Þetta er nákvæmlega eins og með lögregluna og sýslumennina sem fóru af stað í nýju umhverfi, sameinað og stækkað, en svo var halanum skipt á milli, sem er auðvitað óásættanlegt fyrir alla aðila í sjálfu sér að fá ekki að byrja á réttum punkti og þeir sem voru í lagi þurftu að taka á sig hluta af þessu. Ég tel því að hluti af því að innleiða þessi nýju lög sé að þessar stofnanir fái að byrja á sæmilega sanngjörnum grunni, ég tala nú ekki um þar sem markaðar tekjur hafa verið undir en eru ekki lengur, að þess sé gætt í hvívetna, sem mér finnst ekki vera að öllu leyti í framlögðu fjárlagafrumvarpi. Það er í rauninni eini möguleikinn til að þær stofnanir geti haldið áfram eða fengið eðlilegt start miðað við núverandi framlög.

Varðandi Vegagerðina, við fáum væntanlega kynningu á því í fjárlaganefnd á morgun, búið er að setja málið á dagskrá þar á morgun, hvort það er (Forseti hringir.) til staðar enn þá í bókhaldinu, þetta neikvæða eigið bundna fé.