146. löggjafarþing — 7. fundur,  20. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[14:24]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég er á nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar með fyrirvara. Það sem vefst fyrir mér í þessu máli er breytingartillaga um að hér sé um að ræða sjálfstæða stjórnsýslunefnd. Þetta var mikið rætt í nefndinni og sitt sýnist hverjum. Ástæða fyrir andmælum mínum við því er sú að ég tel að þeir sem ákvarða laun og kjör dómara geti ekki verið á vegum framkvæmdarvaldsins, geti ekki verið í stjórnsýslustofnun og þar af leiðandi hluti af framkvæmdarvaldinu og eigi síðan að ákvarða laun dómara. Það stenst einfaldlega ekki stjórnarskrá. Það er rétt í því sambandi að rifja upp dóm sem var kveðinn upp eftir að Alþingi ákvað á sínum tíma eiginlega að hunsa með lögum niðurstöðu gamla Kjaradóms varðandi ákvörðun dómara 2006. Þá höfðaði einn dómarinn mál og vísaði held ég í 2. gr. og 59. gr. stjórnarskrárinnar um sjálfstæði dómstólanna og um aðskilnað ríkisvaldsins.

Ég held að við þurfum að skoða það betur áður en þessi leið er farin. Það er ekki mikill bragur á því ef við fáum í hausinn að kjararáð sé orðið hluti af framkvæmdarvaldinu og um það gildi þá að fullu reglur stjórnsýslulaga og upplýsingalaga og fleiri laga eins og gilda um framkvæmdarvaldið. Þessi umræða fór fram þegar lögin um kjararáð voru sett og menn greinilega í miklum vandræðum með þetta og hafa ákveðið að hafa ekki pósitíft ákvæði um að þetta væri venjuleg stjórnsýslunefnd. Menn töldu að kjararáð ætti frekar að vera einhvers konar sjálfstæður gerðardómur en tóku greinilega ekki af skarið. Hérna virðist meiri hluti nefndarinnar vilja taka af skarið með það að þetta verði stjórnsýslunefnd sem gildi þá um almenn stjórnsýslulög og upplýsingalög að því leyti sem það takmarkast ekki hreinlega af lögunum um kjararáð.

Ég vil biðja þingheim að athuga þetta betur. Ég mun óska eftir því að greidd verði atkvæði sérstaklega um þetta. Málið fer aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. og ég myndi vilja taka þessa umræðu upp á nýtt, fara betur yfir málið, sleppa þessu ákvæði, a.m.k. í bili meðan við förum nákvæmlega yfir hvort þetta standist stjórnarskrána með hliðsjón af þeim dómi sem var kveðinn upp, sennilega einhvern tímann á árinu 2007 frekar en 2008, og fara nánar yfir þetta.

Að öðru leyti tek ég undir nefndarálitið. Breytingartillagan um að halda sendiherrum og sjálfstæðu úrskurðarnefndunum inni er auðvitað umdeilanleg. Sjálfur er ég, eins og hefur margoft komið fram, mjög á móti þessum sjálfstæðu úrskurðarnefndum. Ég held að komið sé tilefni til þess að Alþingi endurskoði stjórnarráðslögin og hætti að útvista valdi til umboðslauss fólks úti í bæ, eins og ég kalla það, sem þarf ekki að bera neina ábyrgð. Menn mega ekki gleyma því að samkvæmt stjórnarskránni ber ráðherra ábyrgð á öllum málaflokkum sem undir hann heyra. Það segir sig sjálft að þegar ráðherra hefur ekki með það að gera og úrskurðir stjórnsýslunefnda af þessu tagi eru ekki kæranlegir til ráðherra þá getur hann ekki borið ábyrgð á því. Hann ræður ekki einu sinni hverjir eru valdir í þessar nefndir.

Sú þróun hefur átt sér stað á Íslandi að færa framkvæmdarvaldið út í bæ. Það er eins og mönnum hafi fundist þægilegra að þurfa að taka sem minnsta ábyrgð á öllum stjórnarathöfnum. Á endanum yrði bara ráðuneytið pólitísk skrifstofa undir ráðherra. Þetta er þróun sem ég held að við þurfum að snúa við. Ég tel mikilvægt að farið sé í þá vinnu fyrr en seinna þannig að við höfum öflug ráðuneyti sem eru endanlegur úrskurðaraðili í stjórnsýslunni, en ekki að það sé í höndum fólks sem hefur ekkert umboð.