146. löggjafarþing — 10. fundur,  21. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[21:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir meirihlutaáliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2017. Áður en ég fer í helstu breytingar ætla ég að rekja í stuttu máli aðalefnisatriði frumvarpsins. Þar er m.a. um að ræða hækkun barnabóta í takt við forsendur fjármálaáætlunar, en hækkunin er 3% og eignarmörk bótanna hækka um 12,5%. Tímabundnar útreikningsreglur vaxtabóta eru framlengdar um eitt ár að frátöldum eignarmörkum bótanna sem hækka einnig um 12,5%. Útgjöld vegna vaxtabóta haldast óbreytt frá fjármálaáætlun. Í frumvarpinu er líka gert ráð fyrir 2,2% hækkun á krónutölugjöldum í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins, auk 2,5% sérstakrar hækkunar til að slá á þensluáhrif. Þetta er samtals 4,7% hækkun. Sama hækkun er á framlagi í Framkvæmdasjóð aldraðra.

Gerð er breytingartillaga varðandi tóbaksgjaldið, gert ráð fyrir verulegri hækkun frá því sem er í frumvarpinu. Gert er ráð fyrir því að á árinu 2017 verði tekjuaukning upp á 500 millj. kr. sem mun hafa örlitla hækkun í för með sér á vísitölu neysluverðs, þ.e. sem nemur 0,053%.

Þá er gert ráð fyrir hækkun á gistináttagjaldi úr 100 kr. í 300 kr. fyrir hverja selda gistináttaeiningu.

Það er líka gert ráð fyrir talsverðri hækkun í frumvarpinu á gjaldskrá FME í samræmi við áætlaðan rekstrarkostnað. Um þessa miklu hækkun varð talsverð umræða í nefndinni og hér er auðvitað byggt á því að rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins muni aukast mjög vegna verkefna sem séu óhjákvæmileg vegna breytinga á löggjöfinni, tilskipana sem hafa verið innleiddar, sem og breytinga á lögum frá Alþingi þar sem gerðar eru auknar kröfur til eftirlits. Þar af leiðandi verður ekki hjá því komist að hækka þessa gjaldskrá.

Í meðferð málsins fyrir nefndinni komu líka fram mikil vonbrigði með að tryggingagjald skuli ekki vera lækkað sem menn töldu, sérstaklega Samtök atvinnulífsins, að gert hefði verið ráð fyrir við gerð kjarasamninga og hefði raunverulega verið forsenda samninganna. Miðað við fjármálaáætlun er gert ráð fyrir þessum tekjum í ríkissjóð og það kann líka að hafa áhrif að ekki er komin meirihlutaríkisstjórn í landinu og slíkar ákvarðanir eru þar af leiðandi látnar bíða. Það var hreinlega ekki gert ráð fyrir því í ríkisfjármálaáætlun að þetta lækkaði og það máttu menn svo sem vita.

Það er líka breyting varðandi niðurfellingu virðisaukaskatts á umhverfisvænum hópbifreiðum. Strætó bs. kom fyrir nefndina, var að kaupa rafmagnsvagna og óskaði eftir því að gjöldin yrðu lækkuð hvað þá varðar. Meiri hluti nefndarinnar leggur til breytingu á ákvæðinu í þá veru að bætt verði við upptalningu ökutækjaflokka þeim flokkum sem strætisvagnar falla undir og þar með jafnframt aðrar stærri gerðir hópferðabifreiða. Þetta er lítils háttar ívilnun en lagt er til að hún nái til hópferðabifreiða fyrir 22 farþega eða fleiri. Vegna fjárhæðartakmarkananna í 3. mgr. ákvæðisins verður hlutfallslega um tiltölulega lága ívilnun að ræða en meiri hlutinn lítur á breytinguna sem fyrsta skrefið í átt að breyttu umhverfi og nýrri stefnumörkun í málefnum umhverfisvænna hópferðabifreiða. Nefndin hefur verið upplýst um að slík vinna er þegar hafin í ráðuneytinu og er mælst til þess að henni verði lokið fyrir haustþing 2017.

Aðrar breytingar sem lagðar eru til eru smávægilegar. Það er verið að leiðrétta vöruflokkanúmer í 40. gr. frumvarpsins og breytingar á sólarlagsákvæði í lögum um fjarskiptasjóð vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem getið er í inngangi að nefndarálitinu en ég las ekki upp.

Með þeim breytingum sem hér eru taldar upp leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt.

Undir álitið skrifa allir nefndarmenn en Björt Ólafsdóttir og Smári McCarthy skrifa undir það með fyrirvara. Þau telja að málið hefði þurft meiri umfjöllun og að nefndin hefði þurft meiri tíma til afgreiðslu þess. Smári McCarthy styður breytingartillögu meiri hlutans en mun að auki leggja fram fleiri breytingartillögur.

Undir álitið rita Benedikt Jóhannesson formaður, Brynjar Níelsson framsögumaður, Elsa Lára Arnardóttir, Sigríður Á. Andersen og Vilhjálmur Bjarnason, og Björt Ólafsdóttir og Smári McCarthy með fyrirvara.