146. löggjafarþing — 10. fundur,  21. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[22:50]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa sérstakri ánægju með það hvernig breytingartillögur hv. þingmanns hafa tekið breytingum á milli umræðna. Nú erum við ekki lengur með rígnegldar þröngar skilgreiningar á þeim bakgrunni sem ráðsliðar þurfa að hafa, heldur opnari skilgreiningu á hæfi þeirra.

Ég, eins og hv. þingmaður, er mikill áhugamaður um opna og gagnsæja stjórnsýslu og það að almenningur hafi aðgang að sem mestum gögnum úr stjórnsýslunni. Ég sé þess vegna ekkert að því að fundargerðir kjararáðs skuli birtar opinberlega þó að ég efist um að það sé mikið krassandi í þeim. Mér finnst mómentið frekar vera í frumvarpinu þar sem kjararáði er gert að rökstyðja með ítarlegri hætti ákvarðanir sínar. Þar þykir mér sigurinn hafa unnist. En það er sjálfsagt að bæta gögnum í staflann sem eru almenningi aðgengileg.

Ég staldra aðeins við hagsmunaskráningargreinina. Í grunninn held ég að rétt sé að þeir sem höndla með opinbert vald, þar séum við alla vega með það í huga hvort við eigum að skrá opinberlega hagsmuni okkar eða ekki. Svo höfum við náttúrlega shæfisreglur stjórnsýslulaga þar að auki. Í þessu tilviki spyr ég mig hvort grein eins og þessi myndi ná utan um dæmi sem hv. þingmaður nefndi í síðustu umferð um að ef lögmenn skipi kjararáð, hvort það væri einhvers konar hagsmunaárekstur gagnvart dómurum sem þeir ákveða kjörin hjá. (Forseti hringir.) Ég sé ekki að við getum með nokkru móti náð utan um þann vanda í lagagrein, hvorki þessari né annars konar.