146. löggjafarþing — 10. fundur,  21. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[22:54]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að herra forseti, lagamenntaður sem hann er, hv. þingmaður og lögfræðingurinn, fyrirgefi mér þó að ég taki undir með þingmanninum og segi að ég telji ekki endilega til bóta að hafa lögfræðinga í hverju rúmi í stofnunum, ráðum eða nefndum, segi ég heimspekimenntaður maðurinn, sem nýt ekki sama aðgangs að ráðum og lögfræðingar virðast gera.

Ég er enn að melta hvort hagsmunaskráning í átt að því sem dómstólar hafa eða sem við þingmenn höfum sé endilega það sem þurfi, hvort nægi ekki einmitt eins og hv. þingmaður nefndi, að upplýsingar kjararáðs um þá sem í ráðinu sitji séu ítarlegri án þess endilega að við teljum allt upp sem þeir gera utan kjararáðs, allt sem þeir eiga og allt sem þeir eru. Mér þykir gott að geta farið á heimasíðu kjararáðs eða hvaða opinbera apparats sem er og séð þar einmitt bakgrunn fólks, hvers konar sort af fólki er búið að safna saman þar og hvort þetta sé einmitt eins einsleitur hópur og kjararáð er þessa stundina. Hagsmunaskráningin sem slík mundi ekkert endilega ná utan um það. Það væri kannski frekar, og það er einmitt það sem við vinnum með tillögu meiri hluta nefndarinnar, að kjararáð heyri með skýrum hætti undir stjórnsýslulög, að þar höfum við hæfisskilyrðin. Það að ráðsliði sé vanhæfur til að skera úr um kjör ákveðinna hópa kemur þá væntanlega til kasta ráðsins við hverja einustu ákvörðun. Þannig að umfram þá breytingu spyr ég mig hversu mikið við vinnum með ítarlegri hagsmunaskráningu.