146. löggjafarþing — 10. fundur,  21. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[22:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki hér til þess að veita andsvar heldur vil ég þakka fyrir ræðu hv. þingmanns og þakka henni fyrir hlut hennar í vinnu nefndarinnar. Ég vil líka fara aðeins yfir það sem við sýsluðum þar þegar við reyndum að setja kjararáð klárt undir upplýsingalög. Það var í hugum sumra alveg skýrt, eins og við hv. þingmaður munum, en í praxís var það ekki eins algilt, líkt og ákveðinn þingflokkur í þessu húsi mátti reyna þegar illa gekk að fá upplýsingar frá kjararáði. Við skoðuðum hvort við ættum að setja stöðu nefndarinnar inn sem stjórnsýslunefnd en féllum frá því og ákváðum að hnykkja á því að kjararáð heyrði undir stjórnsýslulög og þar með upplýsingalög. Þetta var afrakstur góðrar vinnu og var ekki síst vegna framlags hv. þingmanns. Ég vil þakka fyrir það.

Einmitt út af því sem kom fram áðan, af því að við erum að hnykkja á því að kjararáð heyrir undir stjórnsýslulög, þá eru þar hæfisreglur sem ég mundi ætla að ættu við líka. Mig langar að spyrja hv. þingmann um b-lið breytingartillögu hennar. Maður sér auðvitað ekkert athugavert við það að nefnd eins og kjararáð birti fundargerðir sínar á vef, en mig langar að spyrja hvort henni sé kunnugt um að aðrar sambærilegar nefndir geri það, og væntanlega gera það einhverjar, hvort það sé að finna stoð í lögum um að svo beri að gera.