146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

fyrirtækjaskrá.

116. mál
[16:03]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Hv. frummælandi sagði að sér þætti þetta mál einfalt og augljóst. Ég vil taka undir þau orð. Þetta er lítil, einföld og, að ég mundi halda, ódýr breyting sem getur haft mjög jákvæð áhrif. Hv. þm. Smári McCarthy fór ágætlega yfir reynslu sína af vettvangi við að nota sambærileg gögn í öðrum ríkjum og neikvæða upplifun fólks af því að reyna að nálgast þessi gögn hér á landi í gegnum gjaldhlið.

Ég mundi halda að gjaldhlið á opinberum gögnum hér á landi stafi helst af þrennu. Í fyrsta lagi eru þau tímanna tákn, þau eru arfleifð frá þeim tímum þegar þurfti, eins og hér var sagt, að prenta upplýsingar út; það þurfti mannskap í að útbúa og afhenda gögnin þannig að það var sannarlega einhver kostnaður sem réttlætanlegt var að endurheimta. Bara á síðustu örfáu árum hefur þetta gjörbreyst, þannig að nú eru þau rök svo til horfin.

Þegar hið opinbera safnar gögnum, sérstaklega gögnum frá fyrirtækjum sem greiða fyrir skráningu í fyrirtækjaskrá, þá er skráin smíðuð með þeim peningum. Við hljótum að samþykkja að þá sé þar kominn gagnagrunnur sem er í sameign þjóðarinnar. Það er búið að fjármagna innvolsið í honum. Og það er ansi erfitt að réttlæta það svona í prinsippinu að það að taka út nokkur bæt af gögnum rafrænt kalli á gjald.

Önnur möguleg ástæða fyrir gjaldhliðum af þessum toga held ég að sé leyndarhyggja. Það er mjög þægilegt fyrir stjórnvöld, sem vilja ekki óþarflega mikla hnýsni í ákveðin svið mannlífsins, að reisa bara hlið þar sem tekið er hóflegt gjald; það safnast þegar saman kemur þannig að það verður nánast ókleift fyrir fjölmiðla, sem búa við fjárskort, að safna þeim gögnum og vinna úr þeim og gegna þar með hlutverki sínu í lýðræðissamfélagi. Þetta sýnir sig náttúrlega í málum eins og Panamaskjölunum þar sem það að geta náð sem mestum gögnum til að setja upplýsingar í samhengi skilar niðurstöðum sem hefðu ekki fengist annars. Ef miklu hefði þurft að kosta til hefði þurft að fara í mikla óvissuferð til að safna gögnum að niðurstöðu sem enginn vissi hver yrði. Þá hefðum við kannski ekki gengið til kosninga síðastliðið haust í kjölfar Wintris-málsins af því það hefði verið rækilega læst á bak við gjaldhlið og aðra leyndarveggi í kerfinu.

Þriðja ástæðan fyrir gjaldhliðum er bara hrein og klár pólitík. Það er bara sú stefna, sem var rekin hér á landi árum saman, sem við köllum stundum nýfrjálshyggju, að stofnanir ættu að fjármagna sig sem mest sjálfar. Í því skyni var hægt að einkavæða t.d. hluta af starfsemi stofnana. Ég nefni sem dæmi þegar lögum um Landmælingar var breytt þannig að kortaútgáfa var einkavædd út úr stofnuninni. Raunar var gengið svo langt að í lögum er kveðið á um það að þessi stofnun megi ekki gefa út prentuð kort. Þetta er kortastofnun Íslands og hún má ekki gefa út kort, ein stofnana á landinu, enda væri hún þá í samkeppni við einkaaðilann sem fékk þennan bita frá ríkinu.

Fyrst ég er að nefna Landmælingar þá má ég til með að minnast á gögn þeirra. Gögn um landupplýsingar voru, þar til fyrir stuttu, á bak við gjaldhlið af svipuðum toga og fyrirtækjaskrá þangað til tekin var pólitísk ákvörðun og það þá af vinstri vængnum. Það var Svandís Svavarsdóttir, þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, sem vann að því að afnema gjaldtökuna hjá Landmælingum þannig að hver sem er gæti nálgast gögn um grunngerð landupplýsinga, gjaldfrjálst með opnum leiðum þannig að hægt væri að byggja úr þessum gögnum framhaldsgögn. Útkoman er sú sem allir vita sem til þekkja. Þegar aðgengi er aukið að auðæfum, sem felast í gagnagrunnum af þessu tagi, þá verða þau uppspretta nýsköpunar og frekari upplýsinga. Það er svo einfalt með mannskepnuna að hún vinnur úr svona efnivið eitthvað sem er betra en hráefnið. Þannig að ég bíð spenntur eftir að sjá hvað kemur út úr opnun þeirra upplýsinga sem fyrirtækjaskráin býr yfir.

Það að opna gögn Landmælinga, gera þau gjaldfrjáls — mig minnir að kostnaður við það hafi hlaupið á 10 millj. kr. á ári. Mér þykir það ekki há upphæð, sérstaklega vegna þess að ég er frekar hallur undir eina klausu úr drögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá þar sem segir að upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skuli vera tiltæk án undandráttar og að tryggja skuli með lögum aðgang almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af.

Mikið af þessum upplýsingum eru alveg jafn samofin samfélaginu og aðrir samfélagsinnviðir. Þetta er ekkert annað en vegakerfið eða rafveiturnar eða hvað það er. Þetta er hluti af því sem heldur samfélaginu saman. Þetta er fjármagnað með opinberu fé, unnið í almannaþágu og það þurfa að vera ríkar ástæður, eins og t.d. persónuverndarsjónarmið, fyrir því að loka þessum skrám. Þegar ég segi loka þá meina ég að sjálfsögðu líka að loka með gjaldhliðum þó að hóflegu séu.

Hvar værum við t.d. ef gögn Veðurstofunnar væru bak við gjaldhlið, eða Hagstofunnar? Þar eru mikilvæg gögn sem hefur verið talið óverjandi að læsa á nokkurn hátt; Veðurstofunnar vegna þess að þar erum við að tala um öryggisatriði, en Hagstofunnar vegna þess að þar er hafsjór upplýsinga sem fólk getur unnið úr, almenningur, menntafólk og hver sem er, til að varpa ljósi á ástandið í samfélaginu. Töflurnar uppi í Hagstofu gera ekkert sjálfar. Það er þegar við höfum frjálsan aðgang að þeim sem við getum gert eitthvað úr þeim. Ég vil því fagna þessu frumvarpi Pírata og vona að það nái fram að ganga. Ég bíð spenntur eftir því að sjá þær afurðir sem koma út úr opnu aðgengi fólks að þessum gögnum.