146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

samningur við Klíníkina.

[10:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir að það er alltaf gaman að ræða við frænda á hvaða vettvangi sem það er. Ég get ekki annað en endurtekið þau orð sem ég hef sagt hér í dag og áður í þessum ræðustóli, endurtekið og tekið undir þau orð mín sem hv. þingmaður á undan vitnaði til: Þegar kemur að heilbrigðiskerfinu og rekstri í því hefur Björt framtíð skýra stefnu. Sú stefna er samþykkt og var vitnað til hennar í þeim umræðum í desember sem var verið að vitna til rétt áðan. Ég endurtek því orð mín frá því áðan þótt ég muni þau kannski ekki orðrétt: Nei, það stendur ekki til hjá þeim ráðherra sem hér stendur að fela sjúkratryggingum að gera sérstaka samninga við Klíníkina eða aðra einkarekna starfsemi umfram þá rammasamninga sem nú þegar gilda við Læknafélag Reykjavíkur og læknar á Klíníkinni og öðrum stöðvum hafa starfað eftir. Ég veit ekki hvort ég get sagt þetta skýrar þannig að ég segi það bara einu sinni enn: Nei, það stendur ekki til hjá þeim sem hér stendur að fela sjúkratryggingum að gera sérstaka samninga við Klíníkina eða aðrar sérfræðistöðvar um rekstur umfram þann rekstur sem felst í rammasamningi við Læknafélag Reykjavíkur. Það er í samræmi við stefnu Bjartrar framtíðar sem styður vissulega fjölbreytt rekstrarform, eins og kom fram í tilvitnuninni, m.a. þegar kemur að sjálfseignarstofnunum sem hafa um margt verið mjög mikilvægur og farsæll hluti af íslensku heilbrigðiskerfi. Hins vegar styð ég ekki og mun ekki styðja uppbyggingu á einkareknum sjúkrahúsum með heildstæðri þjónustu sem eru reknar í gróðaskyni. Það er andstætt, held ég, (Forseti hringir.) tilfinningu okkar allflestra ef ekki allra Íslendinga þegar kemur að almennri heilbrigðisþjónustu.