146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

vextir og gengi krónunnar.

220. mál
[15:16]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég ætla að hlaupa aðeins yfir þá tillögu sem hér er lögð fram um vexti og gengi krónunnar. Að mörgu leyti alveg ágætistillaga. Afbragð að mörgu leyti og full þörf á að þau mál sem þar eru talin upp verði skoðuð og rannsökuð, ekki bara einu sinni heldur eiga þessi mál að vera í stöðugri skoðun, þ.e. áhrif þess sem gerist í umhverfinu hjá okkur á efnahag landsins.

Meðal þeirra atriða sem flutningsmenn vilja að verði skoðuð eru áhrif af breytingum á gengi íslensku krónunnar á innlenda neysluhegðun sem er auðvitað mjög þarft, ekki síst núna þar sem beinlínis kemur fram að stór hluti af gengi krónunnar, þ.e. hvað krónan er sterk, er talsverð ástæða fyrir þeirri kaupmáttaraukningu sem er orðin í samfélaginu, þ.e. innflutningur er ódýr og kaupmáttur eykst. Áhrifin á neysluvenjurnar og innflutninginn eru sömuleiðis stór liður í því hvað tekist hefur að halda verðbólgu lágri um hríð, þ.e. innflutningur kostar ekki eins margar krónur og áður, sér í lagi olía, bensín og slíkt sem vigtar þungt í þeim mælingum. Það er full ástæða til að skoða það ítarlegar en hefur verið gert þótt áhrifin blasi við okkur allt í kring.

Hér er sömuleiðis gerð tillaga um að áhrif af gengissveiflum á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og atvinnugreina verði skoðuð, þ.e. áhrif af gengissveiflum. Nú erum við með ýmis hugtök yfir það þegar krónan okkar breytist frá degi til dags. Stundum er talað um sveiflur, stundum um flökt; þá erum við að tala um 5, 10, jafnvel 15%. Talað hefur verið um flökt á krónunni að undanförnu þegar hún hefur verið að styrkjast um 5–10% á stuttum tíma. Í öllum venjulegum löndum sem búa við nokkuð stöðugan gjaldmiðil og stöðugt verðlag væri þetta kallað hrun og fall á gjaldmiðli. En við sem erum öllu vön í því köllum þetta flökt og lítils háttar sveiflur.

Sömuleiðis er gerð tillaga um að skoða tengsl stýrivaxta Seðlabankans og gengis íslensku krónunnar sem er full ástæða til að gera — og öfugt, þ.e. áhrif krónunnar sem gjaldmiðils og gengis hennar á stýrivexti, hvernig staða krónunnar getur haft áhrif á ákvörðun peningastefnunefndar um stýrivexti í landinu. Það er ekki síður mikilvægt að gera þetta. Ég legg til að það verði tekið til skoðunar þegar málið verður rætt frekar.

Flutningsmaður nefndi nokkrum sinnum uppgjörs- eða ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna, hvort hún gæti stuðlað að háum langtímavöxtum á Íslandi. Fyrir það fyrsta er þetta ekki ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna heldur fyrst og fremst sú ávöxtun sem þeir hafa náð á peningunum okkar, lífeyrisgreiðenda, á undanförnum árum, og þarf að endurspegla þau réttindi sem við teljum okkur hafa áunnið okkur hjá lífeyrissjóðunum þegar við þurfum á þeim að halda. Lífeyrissjóðurinn þarf að ávaxta peningana okkar til að geta greitt okkur út þegar að því kemur.

Í sjötta lagi er lagt til að kanna hvort vaxtastefna Seðlabankans stuðli að háum vaxtakostnaði fyrir ríkissjóð, rétt eins og þar sé um pólitíska stefnu að ræða, sem er ekki. Vextir í landinu eru ákvarðaðir út frá öðrum þáttum en stefnu Seðlabankans. Seðlabankinn hefur enga stefnu í vöxtum sem slíkum; engin markmið um að hafa vexti í ákveðinni tölu, 10, 5, eða 1%. Það er ekki pólitísk stefna Seðlabankans heldur eru vextir ákvarðaðir út frá öðrum þáttum í samfélaginu. Það ættum við að hafa í huga þegar við tölum um vexti, háa og lága, hvers vegna vextir eru háir. Þeir endurspegla í raun annað sem gerist í samfélaginu, aðrar ákvarðanir, aðra efnahagslega þætti, en ekki að beinlínis sé um að ræða sérstaka vaxtastefnu Seðlabankans.

Ég hefði viljað að fleiri atriði yrðu skoðuð í þessu sambandi, þ.e. hvað varðar vexti og gengi krónunnar. Ég beini því til þeirrar nefndar sem fjallar um þetta mál og flutningsmanna sömuleiðis. Það þarf að kanna áhrif krónunnar sem gjaldmiðils á vextina, hver áhrifin eru af því að vera með lítinn sjálfstæðan gjaldmiðil eins og við erum með. Er hugsanlegt að það hafi áhrif á vexti í landinu? Og vaxtaákvarðanir? Mér finnst mjög mikilvægt að við skoðum það. Meðal annars er verið að skoða það af hálfu stjórnvalda að endurskoða peningastefnuna og mér finnst það harmónera við það að við skoðum þetta frá öllum hliðum, líka hvort gjaldmiðillinn okkar hafi einhver áhrif á vexti og þá hver.

Í greinargerð með tillögunni er fjallað um sjálfstæði Seðlabankans, að það sé einn af hornsteinum bankans og pólitísk afskipti af honum eigi að vera sem minnst. Þó svo að bankinn starfi samkvæmt gildandi lögum sem sett eru hér á Alþingi. Hvert er nú markmið Seðlabankans? Í 3. gr. laga um Seðlabankann segir, með leyfi forseta:

„Meginmarkmið Seðlabankans er að stuðla að stöðugu verðlagi. Með samþykki ráðherra er Seðlabankanum heimilt að lýsa yfir tölulegu markmiði um verðbólgu.

Seðlabanki Íslands skal stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, enda telji hann það ekki ganga gegn meginmarkmiði sínu.“ — Þ.e. að viðhalda efnahagslegum stöðugleika í landinu.

Seðlabankinn hefur með öðrum orðum það hlutverk að sjá til þess að stefna stjórnvalda nái fram að ganga svo framarlega sem hún raskar ekki efnahagslegum stöðugleika. Það stendur framar því að Seðlabankinn eigi að gegna stjórnvöldum.

Um þetta ættu stjórnmálamenn að hugsa, sem kvarta oft yfir háum vöxtum, hvort aðgerðir þeirra hér í þessum sal eða úr Stjórnarráðinu verði beinlínis til þess að vextir í landinu haldist háir. Ég bendi á dæmi um slíkt: Þau tæki og tól sem Seðlabankinn hefur í grófum dráttum eru þau að kalla inn peninga, taka þá úr umferð, með vöxtum eða með því að auka bindiskyldu banka, þ.e. að peningarnir fari ekki í umferð. Með sama hætti getur ríkið tekið peninga úr umferð með skattabreytingum, þ.e. með skattahækkunum. Með sömu aðferð getur ríkið dælt út peningum, þ.e. með skattalækkunum og með því auka á þenslu sem verður aftur til þess að einhvers staðar annars staðar verður að grípa til ráðstafana svo að ekki fari illa. Þá er komið að Seðlabankanum að beita þeim tækjum sem hann hefur, m.a. með því að hækka vexti. Þannig hefur þetta nú gengið dálítið undanfarin ár. Ríkið hefur æ ofan í æ dælt tugum milljarða út í samfélagið með skattalækkunum á þá sem mest hafa, með sérstökum millifærslum úr ríkissjóði til þess hóps samfélagsins sem mest hefur, aukið þannig á neyslu og aukið á þenslu og kallað um leið eftir því að einhver annar grípi til ráðstafana til að koma í veg fyrir afleiðingarnar sem af því hlytust. Sem eru hverjar? Jú, það er hlutverk Seðlabankans að grípa inn í þegar stefna stjórnvalda getur hugsanlega raskað efnahagslegum stöðugleika. Það kallar á vaxtahækkanir. Einhver þarf þá að taka peningana inn aftur til að draga úr þenslu.

Vert er að hafa þetta í huga varðandi ástandið sem var hér fyrir hrun, í aðdraganda hrunsins, með sterku gengi. Peningar streymdu inn í landið. Mér heyrist flutningsmaður tillögunnar vera að bera það saman. Kannski hefðu vextir átt að vera lægri þá. Kannski eigum við líka að skoða hver áhrifin hefðu orðið á efnahag landsins ef vextir væru alltaf lágir, alveg sama hvað stjórnvöld gerðu, alveg sama hvert innstreymi gjaldeyris væri í landinu, sama hver þenslan væri í landinu, sama hvað stjórnvöld gerðu með því að dæla út peningum í skattalækkunum og millifærslur hvers konar. Hver hefðu áhrifin á efnahagslífið og lífskjör okkar orðið ef Seðlabankinn hefði aldrei gripið til ráðstafana til að sporna við oft á tíðum pínu gölnum aðgerðum sem ákvarðaðar hafa verið í þessum sal?

Heilt yfir er ég ánægður með að tillaga af þessu tagi er komin fram. Ég held að full ástæða sé til að rannsaka og skoða þessi mál gaumgæfilega, þ.e. vexti og gengi krónunnar frá öllum hliðum, og fordómalaust og ræða þau þannig að við komumst að einhverri (Forseti hringir.) niðurstöðu, hversu skynsamleg sem hún verður. Ég vona alla vega að við ræðum það og komumst að niðurstöðu sem hjálpar okkur til að ná betri tökum á efnahagslífinu en verið hefur áratugum saman.