146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég bað um að fá að eiga orðastað við hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, hann féllst á það og ég þakka honum kærlega fyrir. Í umræðum undir liðnum um fundarstjórn forseta í gær snerti þingmaðurinn á þekktu stefi í málflutningi sínum. Hann vísaði í atkvæðamagn bak við meiri hluta og minni hluta og sagði:

„Það er ekki lýðræðislegt umboð sem stjórnarmeirihlutinn er með, hann er með lagalegt umboð samkvæmt kosningalögum …“

Því er ég ósammála og mér finnst málflutningurinn varasamur. Það fóru fram kosningar, fólk gat boðið sig fram, atkvæði voru talin, niðurstöður voru reiknaðar út í samræmi við fyrirframákveðnar reglur og úrslit voru birt. Samkvæmt þeim úrslitum fara 63 einstaklingar með vald til að setja lög og ákveða hver fari með framkvæmdarvald í landinu. Þetta er lýðræðisleg niðurstaða. Hér inni erum við öll jafn rétthá, óháð því atkvæðamagni sem að baki okkur býr.

Mér finnst skiljanlegt að stjórnarandstöðuþingmaður vilji stjórnina frá en eitt er að vilja það vegna þess að hún er slæm og annað er að ýja að því að þessir 32 þingmenn hafi minni rétt eða umboð til að mynda meiri hluta um lög eða velja framkvæmdarvald en einhverjir aðrir 32 þingmenn. Mér finnst það vega að fyrirframákveðnum leikreglum sem við höfum sett okkur í þinginu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er hann einlægur í þessari skoðun sinni? Ef hann myndi einhvern tímann lenda í því að vera í meiri hluta sem ekki hefði meiri hluta kjósenda á bak við sig, myndi hann biðja um að atkvæðagreiðslan yrði endurtekin og víxla á atkvæði sínu til að „raunverulegur“ meiri hluti næði fram að ganga?