146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

Matvælastofnun.

370. mál
[15:31]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa skýrslu og umræðuna. Eftir málið sem upp kom í sambandi við fyrirtækið Brúnegg vöknuðu óneitanlega spurningar um hvort meira væri um slíkar blekkingar, hvort fleiri blekkingar væru á ferðinni og neytendur fengju ekki að sjá alla myndina hjá fleiri matvælafyrirtækjum. Við neytendur treystum á eftirlitið og styrk þess til að vernda okkur fyrir slíkum blekkingum og að dýravernd sé í hávegum höfð.

Fram kemur í niðurstöðukafla skýrslunnar að það sé skoðun höfunda að í framkvæmd málsins um Brúnegg af hálfu Matvælastofnunar hafi birst veikleikar í fyrirkomulagi við eftirlit á fyrirtækinu á nokkrum afmörkuðum sviðum sem mikilvægt sé að draga lærdóm af. Tekið er fram að verklagsreglur hafi verið óljósar og óvissa um eftirfylgni athugasemda sem voru gerðar ár eftir ár án þess að brugðist hafi verið við þeim á neinn hátt fyrr en mörgum árum síðar. Nauðsynlegt er að hæstv. ráðherra sem fer með þessi mál og hæstv. ráðherra neytendamála hafi samráð um aðgerðir til að færa málin til betri vegar.

Í skýrslunni kemur einnig fram að áhættumat og áhættukynning á landsvísu sé mikilvægur hornsteinn matvælaeftirlits og veiti eftirlitsaðila ákveðið aðhald. Á grundvelli áhættumats verði skýrara hvaða staðreyndarákvarðanir eru teknar í áhættustjórnun og stjórnendur geti síður valið hvaða sannleika þeir taka sem viðmið. Öll þau lönd sem skoðuð voru í Evrópu nota þetta kerfi að einhverju marki en Ísland hefur ekki innleitt kerfið í heild sinni. Formlegt áhættumat hefur aðeins verið framkvæmt í afmörkuðum málum en aðeins örsjaldan hefur áhættumat verið framkvæmt. Samkvæmt matvælalögum á að skipa áhættumatsnefnd sem vinni óháð áhættumat á vísindagrunni. Það er hins vegar ekki gert. Því verður að kippa í liðinn.

Það er grundvallaratriði að eftirlitsaðilar séu frjálsir í faglegri ákvarðanatöku. Á því byggist m.a. traustið til þeirra. Eftirlitsaðilar í matvælaiðnaði verða að vera faglega sjálfstæðir. Annað er óásættanlegt. Það verður að sjá til þess að eftirlitsaðilar á vettvangi hafi nægilegan stuðning til að fylgja eftir erfiðum málum.

Það er tekið fram í skýrslunni að í a.m.k. einu af viðmiðunarlöndunum séu starfsmenn látnir skrifa undir sérstaka yfirlýsingu um sjálfstæði og hagsmunatengsl. Á Íslandi skiptir slíkt máli þar sem nálægð er mikil á milli manna og ekki óalgengt að eftirlitsaðili og þeir sem eftirlit er haft með þekkist utan starfssviða. Litla kunningjasamfélagið á Íslandi býður upp á spillingargildrur ef formlegar leiðir eru ekki skilgreindar. Formlegir ferlar og góð stjórnsýsla eru enn mikilvægari í minni samfélögum þar sem allir þekkja alla.