146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

190. mál
[23:22]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég kem fyrst og fremst upp til að þakka fyrir ágæta umræðu um þetta mál, ágætar athugasemdir og spurningar sem komu fram. Í ljósi þess að margir hv. þingmenn sem tóku til máls eru meðal flutningsmanna málsins vil ég lýsa því yfir að mér fannst sérstaklega ánægjulegt að heyra hv. þm. Þórunni Egilsdóttur lýsa skoðun sinni á þessu máli. Þótt ljóst sé að ekki er alger einhugur í þingsal um þetta mál leyfi ég mér að vera bjartsýn á það að þingmenn muni taka það núna til umræðu. Það er ánægjulegt að við séum að ná að senda það til umsagnar og vonandi fæst tími til að ræða málið í nefnd þannig að það fái þinglega meðferð.

Það eru margir góðir punktar sem hafa komið fram. Ég tel að hluti af því að veita þessum nýja hópi þennan rétt, þessi réttindi, fari að sjálfsögðu saman við að veita honum aukna ábyrgð. Ég held að allt sem við höfum verið að gera hvað varðar aukna áherslu á menntun til lýðræðis og annað slíkt snúist um að undirbúa þennan aldurshóp til þess að taka aukna ábyrgð.

Ég lauk ræðu minni áðan á að segja að mér fyndist mikilvægt að treysta ungu fólki og ég held að þessi hópur sé mjög tilbúin til þess. Hins vegar tel ég að það sé mikilvægt að við ræðum hvað okkur finnst um samræmi í löggjöf og annað slíkt. Hér var ágætisathugasemd hjá hv. þm. Andrési Inga Jónssyni sem benti á að allir stjórnmálaflokkar miða við 16 ára aldurstakmark, nema Sjálfstæðisflokkurinn sem miðar við 15 ára, til þátttöku í pólitísku starfi. Þá erum við væntanlega að veita þeim hópum, a.m.k. í minni stjórnmálahreyfingu, réttinn til að velja sér fulltrúa, t.d. í forvölum eða prófkjörum eða hvað það nú er. Viljum við þá ekki um leið veita þeim réttinn til að taka þátt í þeim endanlegu kosningum sem taka við?

En fyrst og fremst vil ég þakka umræðuna. Það hefur aðeins skapast umræða um nefndarvísun. Ég lagði til að málinu yrði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar en það er niðurstaðan að lokinni þeirri umræðu að ég legg til að málinu verði, eins og áðan, vísað til allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni þessari umræðu og vonast til þess að við fáum það aftur á dagskrá á þessu þingi til 2. umr.