146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

fjármálafyrirtæki og opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

126. mál
[15:50]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Mér finnst mikilvægt að það komi fram við lokaafgreiðslu þessa máls að það er skilningur nefndarmanna í efnahags- og viðskiptanefnd að með þessum breytingum sem ég studdi að vísu ekki — við þingmenn Vinstri grænna studdum ekki þessar breytingar — sé ekki verið að banna nafnlausar ábendingar. Mér finnst mjög mikilvægt að sá skilningur löggjafans sé undirstrikaður hér, það er ekki verið að banna nafnlausar ábendingar innan fjármálakerfisins. Þær eru áfram heimilar og ég held að það sé algjört grundvallaratriði (Gripið fram í.) að þær verði áfram heimilar. Það kom fram sem sagt í umræðum í nefndinni að þetta er skilningurinn á frumvarpinu eins og það lítur út. (BirgJ: … kemur náttúrlega fram …)