146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

lánshæfismatsfyrirtæki.

401. mál
[18:58]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa tölu mína langa hér, enda reifaði framsögumaður nefndarálits minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar álit okkar prýðilega og fór yfir grundvallaratriði í þeirri yfirferð og einnig í andsvörum við hv. þm. Lilju Dögg Alfreðsdóttur.

Eins og fram hefur komið er þetta mál gott í heild sinni. Það er hluti af endurskoðun á fjármálakerfinu innan Evrópu eftir hrun þar sem regluverk og eftirlit hefur verið hert o.s.frv. Þá er einmitt svo brýnt að staldra aðeins við og velta því fyrir sér hvaða gildum við ætlum að koma að í leiðinni við þessa vinnu og hvers konar sjónarmiðum verið er að koma á framfæri við þessa innleiðingu á skýrara eftirliti og skýrara regluverki, sem er alltaf gott út af fyrir sig, sérstaklega eftir hamfarir eins og efnahagshrunið varð.

Ég velti því líka fyrir mér, eins og fram kemur í nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar undir lokin, hversu oft gerðir eru fyrirvarar um framsal valdheimilda, hversu oft það gerist þegar við erum að innleiða hér fínar gerðir að við verðum ávallt að gæta þess hvort verið sé að framselja valdheimildir og hvort það framsal standist stjórnarskrá. Ég held að það sé þokkalegur samhljómur meðal þingmanna sem nú sitja á Alþingi um að við þurfum að fara í aðeins ítarlegri skoðun á þessu álitaefni sem oft kemur upp og ítrekað og haldnar hafa verið margar ræður um og skrifaðar skýrslur. Ég held að við þurfum að fara að velta því alvarlega fyrir okkur að fara svolítið, ef ég leyfi mér að sletta hér, „grundigt“ inn í þessar hugleiðingar og vinnu. Ég veit að það er gert á einhverjum sviðum innan þingsins.

Varðandi þær sjálfstæðu ákvarðanatökur sem eru innan ESA og það hversu vel í stakk búin EFTA-ríkin eru þá leyfi ég mér líka að nota þetta tækifæri til þess að hamra á því að Alþingi Íslendinga verði betur undirbúið til þess að fylgja eftir þeim málum á fyrri stigum þegar við innleiðum hér reglugerðir, sér í lagi um svona viðamikil mál er varða fjármálakerfi okkar. Ég held að við ættum að beina sjónum okkar og einbeita okkur að því að styrkja stjórnsýsluna og aðkomu þingsins að þessum málum á fyrri stigum, þannig að við hér innan þingsins séum betur undirbúin til að taka upplýstar ákvarðanir er lúta að innleiðingu gerða og standa vörð um þá pólitík sem hér er en verður kannski út undan á þeim hlaupum sem þingmenn eru oft á.

Eins og fram hefur komið í nefndaráliti minni hlutans teljum við málið gott í heild sinni. Það er hluti af stærri endurskoðun, en við setjum ákveðna varnagla við málið í heild sinni.