146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[11:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í tilefni af þessum ummælum hv. þingmanns er kannski tvennt sem ég vil koma sérstaklega á framfæri. Annars vegar að sú aðferð sem dómnefnd á hverjum tíma velur í sinni vinnu er ekki bindandi nema fyrir þá dómnefnd, þ.e. hvernig hún telur rétt að meta einstaka þætti. Þær reglur sem binda hendur dómnefndarinnar eru reglugerð frá ráðherra nr. 620/2010 sem fjallar með almennum hætti um þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar. Þar er talað um að nauðsynlegt sé að fram fari heildarmat þar sem meðal annars sé horft til tiltekinna þátta, en vægi þeirra ekki sundurgreint og ekki um að ræða tæmandi upptalningu á þeim þáttum sem geta komið til skoðunar.

Ég held að það sé algerlega ótvírætt að ráðherra hefur rökstutt tillögu sína á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Það að telja dómarareynslu veigamikinn þátt þegar verið er að skipa í embætti dómara getur ekki verið annað en málefnalegt sjónarmið og ég held að það sé engin ástæða til þess að ætla annað í þessu sambandi.