147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[15:30]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tel þetta einstaklega góða ábendingu sem fram hefur komið hvað þetta varðar og auðvitað eitthvað sem verður að gera bragarbót á sem fyrst. En þetta er að sjálfsögðu hluti af stærra mengi, sem er að þetta hugtak, uppreist æra, er í lögum frá 1869 eða þar um bil. Það á náttúrlega ekki heima í nútímasamfélagi, hvernig við stöndum að þessu.

En hvernig það hefur verið túlkað og hefur ratað inn í okkar lagabálka hingað til hefur verið til þess að verja ríkið, aðallega ríkið, fyrir mönnum sem hafa gerst sekir um fjárglæfrabrot. Þetta snýr bara að því að passa upp á peninga ríkisins. Þar hafa börn, konur, lögræðissviptir til dæmis, aldrei átt neina rödd eða haft neina aðkomu. Það hefur ekkert verið gert til að tryggja að einstaklingar sem hafa brotið af sér á svívirðilegan hátt geti ekki komið að þessum störfum. Alla vega ekki með fullnægjandi hætti.

Að sjálfsögðu er þetta liður í því sem verður að skoða í þessari heildarendurskoðun. Það hafa einmitt margir komið að máli við mig: Hvers vegna ekki kennarar, hvers vegna ekki þessir eða hinir? Ég segi: Að sjálfsögðu allar þessar starfsstéttir. Það eru hins vegar einungis tvær sem hafa þetta „nema hann hafi fengið uppreist æru sinnar“ nákvæmlega sem skilyrði. Þess vegna fannst mér nú líka liggja talsvert á akkúrat þessu.

En auðvitað lýsir þetta ferli allt saman þeim breytingum sem eru í gangi í samfélagi okkar, um viðhorf okkar gagnvart því hvað sé ábyrgðarstaða, um viðhorf okkar gagnvart því hvað sé valdastaða. Er valdastaða einungis sú að sýsla með peninga ríkisins eða er hún mögulega líka sú að hafa á einhvern hátt aðstöðumun eða vald yfir öðrum einstaklingum, hafa þá í sinni umsjá eða bera ábyrgð á þeim? Þetta er eitthvað sem ég held að verði að vera leiðarstefið í heildarendurskoðun á þessum lögum, þ.e. að vernda rétt og mannréttindi allra þeirra sem eru í umsjón annarra og hafa einhvern veginn minna vald en þeir sem bera ábyrgð á þeim.