147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[15:40]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að í dag eigi að breyta ákvæði um uppreist æru í almennum hegningarlögum. Af umræðum undanfarna daga í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum og í þingnefndum er augljóst að þörf er á slíkum breytingum. Það voru fórnarlömb barnaníðinga sem höfðu hátt og knúðu fram aðgerðir stjórnvalda. Þau og fólkið þeirra sættu sig ekki við hvernig um málið var búið og fannst gerðir stjórnvalda gera lítið úr glæpnum sem á þeim var framinn þó að hann sé með þeim alvarlegustu sem hugsast getur; ofbeldi gegn börnum, kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og nauðganir. Fjölmiðlar og þingmenn héldu málinu vakandi þó að ráðherrar og stjórnarþingmenn virtust tregir til að upplýsa málið.

Með frumvarpinu eru gerðar breytingar á 84. gr. almennra hegningarlaga og 85. gr. er tekin út. Þetta er fyrsta skrefið í átt að heildarendurskoðun sem nauðsynlegt er að fram fari á næsta þingi. Með frumvarpinu er einungis lagt til að stöðva þá framkvæmd að stjórnvöld veiti uppreist æru samkvæmt heimildarákvæði í 85. gr. laganna og 238. gr. fellur líka brott.

Hér hefur verið talað um hvað gerist á nýju þingi. Getum við verið viss um það að heildarendurskoðun fari fram? Ég er sannfærð um það vegna þess að allir formenn stjórnarflokkanna, og allir þeir þingmenn sem hafa tjáð sig um málið, vilja þessa heildarendurskoðun. Ég treysti því að hún fari fram.

Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Fram hefur komið mjög víðtækur vilji til að hverfa sem allra fyrst frá núgildandi reglum og framkvæmd varðandi uppreist æru.“

Þetta er sannarlega varlega orðað því að raunin er sú að almenningur getur ekki sætt sig við annað en breytingar. Krafan um breytingar á þessum lögum er skýr og hún er hávær. Nágrannar okkar í hinum norrænu ríkjunum eru löngu búnir að laga þetta hjá sér.

Í stuttu máli er ferillinn við uppreist æru þessi:

Þegar umsókn um uppreist æru berst ráðuneytinu er óskað eftir opinberu sakavottorði. Síðan er kannað hvort tímaskilyrði séu uppfyllt. Því næst er reynt að sannreyna góða hegðun með því að fara yfir bréf frá a.m.k. tveimur meðmælendum og kannað hvort umsækjandinn eigi ólokið mál í refsivörslukerfinu eða mál á sakaskrá sem varða fangelsi eða þann dóm sem óskað er uppreist æru fyrir. Ef þetta er allt uppfyllt þá er unnið minnisblað fyrir ráðherra þar sem lagt er til að viðkomandi verði veitt uppreist æru. Dómsmálaráðherra fer svo með málið til ríkisstjórnarinnar þar sem forsætisráðherra ber málið upp og þar á eftir gengur það til forseta.

Þessi vélræni ferill, sem kallaður hefur verið í umræðunni, þar sem enginn vill kannast við að bera ábyrgð, er óásættanlegur og krafan um breytingar er sjálfsögð og löngu tímabær. Það verður að halda áfram. Þó að allt ferlið hafi farið af stað vegna þess að dómur kvað upp úr um það að dæmdur barnaníðingur gæti fengið lögmannsréttindi sín aftur eftir að hafa fengið uppreist æru þá eru það svo mörg önnur störf sem þarf að gera skýrar kröfur um að barnaníðingar sinni alls ekki. Það má nefna kennarastörf, umönnun með fötluðum börnum og þeim sem standa veikir fyrir, skólabílstjóra og mörg fleiri störf með börnum. Allt þetta þarf að vinna vel á næsta þingi og fara þarf í gegnum þá lagabálka sem um ræðir. Það verður einnig að taka til gaumgæfilegrar skoðunar meðferð kynferðisofbeldismála í öllu kerfinu.

Herra forseti. Ég er áheyrnarfulltrúi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og hef því fylgst með og tekið þátt í vinnunni í nefndinni og eins og aðrir fylgst með allri umfjölluninni sem farið hefur fram fyrir utan nefndina um þetta mál sem er einstaklega ógeðfellt.

Eftir kröfu og ákall fórnarlamba kynferðisbrotamanns óskaði hv. þm. Svandís Svavarsdóttir eftir fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og fékk stuðning nokkurra nefndarmanna fyrir þeirri beiðni. Þann 18. júlí var fundurinn haldinn og nefndin óskaði eftir því að sjá meðmælendabréfin í tilteknu máli og yfirlit yfir þau brot sem umsækjendur undanfarinna ára um uppreist æru höfðu gerst sekir um. Þremur dögum eftir þá beiðni nefndarinnar, eða þann 21. júlí, hefur dómsmálaráðherra samband við forsætisráðherra og segir honum að faðir hans sé einn af meðmælendum barnaníðings sem níðst hafði á stjúpdóttur sinni í 12 ár, eða frá því hún var fimm ára.

Nefndin fékk í ágúst afhent meðmælabréf frá dómsmálaráðuneytinu í trúnaði og fulltrúi Viðreisnar á þeim fundi og allir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins nema formaður nefndarinnar gengu út af fundi og vildu ekki sjá bréfin. Í viðtölum við fjölmiðla lögðu þau áherslu á að þau vildu ekki vita nöfn meðmælenda enda skiptu þau ekki máli að þeirra mati. Dómsmálaráðuneytið synjaði fréttastofu Ríkisútvarpsins í kjölfarið um að fá að sjá bréfin og Ríkisútvarpið kærir synjunina til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar kemur síðan 11. september og fjölmiðlar fá meðmælabréfin. Þá fá allir að vita um föður forsætisráðherra. Í kjölfarið fara karlmennirnir sem veittu meðmælin að afsaka eða neita aðkomu að uppreist æru barnaníðinga. Í huga fólksins í landinu stóðu þær eftir varnarlausar, unglingsstúlkur og fimm ára stúlkubarn sem urðu fyrir hræðilegum glæp sem aldrei fyrnist í þeirra huga. Og stjórnin brást vegna trúnaðarbrests.

Um leið og ég fagna því að við skulum hér vera að breyta hegningarlögum, eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir, lýsi ég skömm minni á þeirri leynd sem umlukið hefur málið, leynd sem virðist aðeins hafa verið til þess að verja karla sem mæltu með því að barnaníðingar fengju uppreist æru, ekki bara hvaða karla sem er heldur góðan styrktaraðila Sjálfstæðisflokksins og föður forsætisráðherra.