147. löggjafarþing — 7. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[23:14]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Þegar við tökum sæti á Alþingi heitum við því að virða stjórnarskrána og fara að henni. Þess vegna er lykilatriði, eins og kemur fram í nefndarálitinu, að með því að gera þá breytingu sem nefndin leggur til um að setja ákveðin tímatakmörk eða raunar gefa annaðhvort þinginu eða dómsmálaráðuneytinu tækifæri til þess að koma með þær lagabreytingar sem snúa að grundvallarréttindum fólks, borgaralegum réttindum sem snúa að kjörgengi og atvinnufrelsi, þá séum við að uppfylla það heit sem við gáfum.

Ég tel því að setningin sem kemur fram í nefndarálitinu, virðulegi forseti, sé algjört lykilatriði í þessu máli. Með þeirri breytingu sem við leggjum hér til telur nefndin að fullnægt sé skilyrðum fyrir því að stjórnarskrárvörðum réttindum séu settar skorður, enda sé það gert með lögum í skýrum tilgangi, nauðsynlegt í lýðræðisríki og meðalhófs gætt.

Ég vænti þess að nauðsynleg vinna og sú vinna sem er í gangi nú þegar í dómsmálaráðuneytinu verði unnin hratt og vel. Hér eru einmitt líka leiðbeiningar og ábendingar um það varðandi forgangsröðun okkar, að horfa þá til kjörgengis. Síðan í framhaldinu eru aðrir þættir sem þarf að bæta úr.