148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[17:15]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara hafa það alveg á hreinu, eins og ég nefndi í ræðu minni, að þetta eru eins og ég kallaði það bónusrök. Þetta er ekki ástæðan fyrir því að ég aðhyllist þá breytingu sem ég legg til, heldur bara að þetta hentar vel til þess að rétt dýfa tánni ofan í vatnið til að sjá hvað gerist. Við erum í góðri aðstöðu til að prófa það og mæla en helstu rökin voru sögð þar áður, og ég vísa aftur í nefndarálitið fyrir rökunum fyrir því að gera þessa breytingu, þ.e. afnema skerðingar ellilífeyris almannatrygginga vegna atvinnutekna. Ég nefni ekki borgaralaun í nefndaráliti mínu og það var meðvituð ákvörðun.

Það er alltaf erfitt að spá fyrir um framtíðina, sérstaklega þegar við lifum á tímum þar sem við vitum ekki einu sinni alveg hvað börnin okkar munu gera þegar þau verða komin á okkar aldur. Við vitum ekki einu sinni hvaða starfssvið verða til. Við vitum ekkert hvaða þekking og hvaða menntun verður þar langmikilvægust. Við getum giskað á það. Sennilega verður stærðfræði alltaf klassísk. Sennilega verður heimspeki alltaf mjög gagnleg. Sennilega munum við þurfa að kunna að lesa og skrifa. Við getum gefið okkur örfáa hluti en um leið og við erum komin í sérhæfingu erum við komin á mjög hálan ís þegar við ætlum að fara að spá fyrir um hvernig starfsstéttir framtíðarinnar munu líta út.

Það er líka spurning hvernig hagkerfið sjálft þróast. Þetta allt saman er það sem þarf að kortleggja, það er það sem tillaga okkar snýst um, þ.e. að kortleggja og skoða þessa möguleika. Ef vélar taka yfir þessi störf segir það sig sjálft að eitthvert fólk mun eiga þessar vélar. Með öðrum orðum, ef þessi þróun mun eiga sér stað lítur það í fljótu bragði út eins og það myndi valda gríðarlegu eignaójafnvægi og í raun og veru að eignarhald yrði þungamiðja hagkerfisins frekar en atvinna. Það er í raun og veru sú grundvallarbreyting sem ég sé fyrir mér að í óbreyttu peningakerfi myndi fjármagna einhverjar lausnir á borð við borgaralaun. Hagkerfið sjálft þyrfti að breytast, það er alveg rétt, enda eru borgaralaun hugsuð sem viðbrögð við þeim möguleika.