148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

málefni fatlaðs fólks og aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

28. mál
[20:45]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti velferðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks og lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Þetta mál, eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmönnum sé kunnugt um, er framlenging á bráðabirgðaákvæði vegna NPA þjónustu, notendastýrðri persónulegri aðstoð.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín gesti, m.a. frá velferðarráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Landssamtökunum Þroskahjálp, NPA-miðstöðinni og Öryrkjabandalaginu.

Með frumvarpinu er kveðið á um næstu skref í lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar sem hefur verið rekin sem tilraunaverkefni frá árinu 2012 á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða IV í lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992.

Ég ætla ekki að lesa nefndarálitið frá orði til orðs, en nefndin hefur rætt ítarlega um málið, farið m.a. yfir það vegna þeirra tafa sem hafa orðið á því að klára lagasetninguna hér á þinginu. Við erum nú stödd þar í ferlinu að myndast hefur töluverð uppsöfnuð þörf fyrir fjármagn fyrir nýjum samningum. Þess vegna er það vel að í fjárlagafrumvarpinu sem liggur fyrir er gert ráð fyrir auknu fjármagni til fleiri samninga, en nefndin leggur á það áherslu, eins og kemur fram í nefndarálitinu, að þar verði gert betur, að við beinum því til fjárlaganefndar og þingheims alls þar með að tækifæri í fjármögnun verði á næsta ári til að gera betur en þarna er kveðið á um og fjölga samningum upp í allt að 100 en ekki bara 80 eins og hafði verið gert ráð fyrir áður.

Nefndin telur einnig afar mikilvægt að sérstakt fjármagn sé hugsað í þann þátt notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar sem snýr að öndunarvélum og öndunarvélaþjónustu í heimahúsum. Sem betur fer er þar ekki um stóran hóp einstaklinga að ræða en afar viðkvæman. Ljóst er að þjónustan og þjónustuálagið sem hlýst af umönnun sem snýst í kringum öndunarvélar er mun umfangsmeira og kostnaðarsamara eðli málsins samkvæmt en ella væri. Því er ekki nema sanngjarnt að það sé sérstaklega gert ráð fyrir því að til þessara verka sé ætlað aukið fjármagn umfram það sem mætti kalla venjulega NPA-samninga.

Nefndin gerir þess vegna í áliti sínu sérstaklega orð að þessu þar sem farið er yfir mikilvægi þess að á því máli sé tekið sérstaklega. Við hv. nefndarmenn viljum að sá hópur fái sérstaka tilhliðrun þegar kemur að fjármagni til þessara samninga og að það sé hugsað í rauninni þannig að fjármunir séu nánast eyrnamerktir til þessara verka sérstaklega.

Það er mikilvægt að hér komi fram í þingsal að hv. velferðarnefnd er einhuga í þessu máli. Það er algjör samstaða í nefndinni um mikilvægi þeirra mála sem hér eru rædd. Nefndin talaði sig í sameiningu niður á lausn í málinu og þess vegna treysta allir nefndarmenn í hv. velferðarnefnd sér til að skrifa undir nefndarálitið og senda það frá sér sameiginlega.

Nefndin leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt, þ.e. frumvarpið um framlengingu á NPA-ákvæðinu. Og í rauninni ekki meira um það að segja en lesa nöfn nefndarmanna sem eru: Halldóra Mogensen, Ólafur Þór Gunnarsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Andrés Ingi Jónsson, Ásmundur Friðriksson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Árnason.