148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fjárforræði er gott orð til að ljúka þessu á. Ég skil þessa andstöðu miklu betur út frá þeim tíma þegar ekkert var í boði nema verðtryggð lán, en núna er hægt að velja. Núna getur hver sem er valið um það að taka ekki verðtryggt lán. Það einfaldlega kostar meira vegna þess að það er há verðbólga á Íslandi, af hvaða ástæðum sem það svo sem er, og lánin fást einfaldlega ekki á lægri vöxtum en raun ber vitni.

Ég velti stundum fyrir mér hvort fólk sem er svona á móti verðtryggingunni væri reiðubúið til að spara sjálft, leggja til hliðar, óverðtryggt. Til í að setja í lífeyrissjóðinn ef það væri ekki verðtryggt, eins og það er lögum samkvæmt. Ég myndi ekki gera það. Ekki á Íslandi. Ekki í íslenskri krónu. Kæmi ekki til greina. Ekki nema kannski á 7–8% eða 5% vöxtum eða ég veit ekki hvað, alla vega miklu hærri vöxtum en ég get fengið nokkurn tíma þegar það er verðtryggt.

Hv. þingmaður sagði að þetta væri ekki bjóðandi. Ja, þetta er einmitt boð. Fólk getur alveg hafnað verðtryggðu láni í dag. (Forseti hringir.) Það bara kostar pening þannig að það þarf eitthvað annað að koma í staðinn. Ef hugmyndin er einfaldlega sú að banna verðtryggð lán þarf eitthvað annað að koma í staðinn fyrir fólk sem ræður ekki við 7–8% vexti af 25 eða 40 ára láni.