148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:38]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M):

Herra forseti. Ég þakka formanni fjárlaganefndar. Ég kem sem nýr þingmaður að fjárlagavinnunni og fer yfir frumvarpið, og þá á ég við prentuðu útgáfuna, og mér finnst það óskýrt. Ég hef í námi mínu lesið ýmsa doðranta, en ég verð að segja að þetta þarf að vera auðveldara yfirlestrar; það þarf að vera atriðaorðaskrá, það þarf að gera samanburð auðveldari o.s.frv. Það var fyrst og fremst þessi prentaða útgáfa sem ég átti við. Kannski verð ég í þessari nefnd einhver ár og menn verða náttúrlega þjálfaðir í þessu. En það er líka umhugsunarefni, þegar nýir þingmenn koma í svo mikilvæga nefnd, að haldin verði námskeið til þess að fara í gegnum það hvernig þessi frumvörp eru sett upp.

Fyrirspyrjandi spyr hvað ég eigi við þegar ég segi að embættismönnum hafi tekist býsna vel upp. Þegar við fengum forstöðumenn á landsbyggðinni á okkar fund þá sögðu þeir að þeir væru að reyna að hafa samband við embættismenn heilbrigðisráðuneytisins, en engum fyrirspurnum væri svarað og væri þeim svarað þá tæki það sex mánuði. Þetta er kjarni málsins. Þeir virðast geta dregið einhverja línu og svo ná þeir sem eiga að vinna eftir þessu ekki einu sinni sambandi við umrædda embættismenn, geta t.d. ekki spurst fyrir um reiknireglur og annað slíkt. Það var nú þetta sem ég átti við.