148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir greinargóð svör. Mér fundust margir kaflar góðir og innihald frumvarpsins gott, almennir kaflar um efnahagsforsendur frumvarpsins og hagspár og margar töflur mjög skýrar og greinargóðar. Þegar kemur að kafla um greinargerð ráðuneyta um málefnasviðin og málefnaflokkana þá kom fram á fundi fjárlaganefndar að ráðuneytin eru að vinna sig áfram með markmiðsframsetninguna. Ég get tekið undir með hv. þingmanni og geng í lið með honum með það að ná úrbótum í þessu, því að við erum áhugamenn um bætta umgjörð. Ég skildi það svo, þess vegna vildi ég spyrja varðandi ríkisstofnanir og embættismenn, af því það fór fram ágætisumræða um fjáraukann. Ég fagna mjög þessum lögum um opinber fjármál og þeirri umgjörð sem þau lög veita fjárlagagerðinni og ekki síður eftirlitsþættinum, eftirliti með fjárveitingum og skilvirkni og bættri nýtingu fjár. Það var ágætisumræða í umræðum um fjáraukann sem sneri að varasjóðum og meðferð og nýtingu varasjóða sem kveðið er á um. Ég stóð í þeirri meiningu að hv. þingmaður ætti við það en hann hefur útskýrt mál sitt vel, ræðu sína, og það sem kom fram í nefndarálitinu varðandi það. Ég þakka fyrir það.