148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:14]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að reyna að leitast við að svara því sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom inn á í framsögu sinni með nefndaráliti um þessi fjárlög. Fyrst vil ég segja að þar sem hann ræddi almennt um vinnubrögðin í kringum það að fylgja fyrirmælum laga um opinber fjármál á jafn stuttum tíma og raun ber vitni, og hv. þingmaður orðar þetta í sínu nefndaráliti þannig að það sé kannski engum um að kenna í ljósi aðstæðna en hættan sé sú að mistök verði gerð, að hér sé verið að afgreiða mál án þess að við séum í raun og veru bæði að fylgja stjórnarskrárbundnum reglum sem og reglum um opinber fjármál.

Það er auðvitað enginn bragur á þessu, að annað árið í röð séum við að afgreiða fjárlög á jafn skömmum tíma og raun ber vitni. Þegar við afgreiddum fjárlög í fyrra í tíð starfsstjórnar með engan eiginlegan pólitískan meiri hluta á þinginu voru það okkar orð, að minnsta kosti mín, í þessum ræðustól að það væri mjög mikilvægt að árið yrði nýtt til að fara yfir þá málaflokka sem í raun og veru náðist ekki að fara yfir við meðferð fjárlaga þá. Í ljósi þess að það eru yfirleitt stærstu málaflokkarnir sem fá mesta athygli, ég nefni heilbrigðismálin sem hv. þingmaður talaði um, stóru línurnar í menntamálum, samgönguframkvæmdir, almannatryggingar, en minni tími gefst til að ræða mun mikilvægari mál, smærri mál. Ég get nefnt sem dæmi menningarmál sem í raun og veru hafa legið óbætt hjá garði núna annað árið í röð, svo ég taki það sem dæmi, að verulegu leyti af því að ekki hefur gefist tími hjá fjárlaganefnd til að fara yfir þau. Það er því ágætisábending sem hv. þingmaður kemur með í áliti sínu að fjárlaganefnd nýti vormánuði, þó að það sé öfugsnúið, til að fara betur yfir framkvæmd fjárlaga.

Ég vil líka nefna að ég tel að mikilvægt sé að því sé fylgt eftir sem hafið var í tíð (Forseti hringir.) … á fyrra þingi, fyrirgefið, frú forseti, og það er að kanna í raun og veru hvernig fjárstjórnarvald þingsins fer saman við ný lög um opinber fjármál. Ég kem aðeins nánar að því í seinna andsvari sem og fjármuni til forsætisráðuneytisins.