148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir afar glögga ræðu. Hv. þingmaður kom vel inn á hagstjórnarþátt ríkisfjármála. Hann fór yfir bótakerfið, sem hann þekkir auðvitað mjög vel eftir að hafa starfað sem félags- og jafnréttisráðherra og tekjuöflunarkerfin. Stundum eru það kallaðir sjálfvirkir sveiflujafnarar þegar við ræðum þessi mál, hv. þingmaður. Svo ég setji spurninguna í samhengi kom ég inn á að frumútgjöld væru að aukast um 66 milljarða, svipaða fjárhæð og milli síðustu fjárlaga. Spurningin er sú hvort hv. þingmaður sjái eitthvert mynstur um sjálfvirkan útgjaldavöxt og hvort einhver munur sé á því, ef hann tengir það hinum sjálfvirku sveiflujöfnurum, að við erum á toppi hagsveiflunnar 2016 — ég veit að allar tímasetningar í svona keynesískri hagstjórn eru álitamál eða alla vega mjög viðkvæmt mál — og þeirri útgjaldaaukningu sem við horfum á núna. Er hún réttlætanlegri eða kemur hún öðruvísi í gegnum sveiflujöfnun en fyrir ári síðan?