148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:48]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég virði að sönnu þessar skoðanir hv. þingmanns. Að sjálfsögðu. Þarna greinir okkur einfaldlega á. Í meginatriðum er ég sammála því að þegar hagvöxtur er er kannski ekki rétti tíminn til að lækka skatta enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki, í þeirri miklu þenslu sem hefur verið undanfarið, þessum mikla vexti, rekið mjög harða skattalækkunarstefnu, þó svo að við höfum áhuga á að breyta samsetningu ýmissa gjalda en halda okkur við að vera bremsa á skattahækkanir, vera stöðugt að endurskoða skattkerfið og skilja og auka virkni þess og nýtingu.

Það er einn skattstofn sem ég hef miklar áhyggjur af núna og gat tímans vegna ekki komið að í ræðu minni, það er t.d. álagning veiðigjalda. Ég horfi upp á það að lítil útgerðarfyrirtæki í mínu kjördæmi, svo að ég vísi til þess sem ég er kunnugastur, eiga í mjög miklum erfiðleikum vegna þess hve veiðigjöld sem á þau leggjast á þessu ári eru há. Þetta er dæmi um skattstofn sem við þurfum að skoða þrátt fyrir vöxt í efnahagslífinu. Því skattar geta verið mjög skaðlegir á ákveðna starfsemi eða skaðað atvinnulíf. Það er það verkefni sem við eigum stöðugt að vera í. Þess vegna er mikilvægt að tala stöðugt um lækkun skatta. En ábyrgð okkar felst að sjálfsögðu í því að ganga ekki þannig fram í þeim efnum að við völdum skaða eins og ég nefndi í ræðu minni hér áðan.