148. löggjafarþing — 9. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[23:29]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég held að fyrir það fyrsta sé kostnaðaráætlun vegna þessara breytinga verulega ofáætluð í breytingartillögunni því að gert er ráð fyrir 1.400 millj. kr. framlagi vegna hækkunar á frítekjumörkum í 100.000 kr. Samkvæmt því sem ég þekki kostar u.þ.b. 1 milljarð til viðbótar að afnema frítekjumörkin að fullu. Ég held að hér séum við að horfa á aðeins stærri tölur í breytingartillögunni en raunverulega þarf til.

Að auki tek ég undir þau sjónarmið sem bent hefur verið á nú þegar í atkvæðagreiðslunni, það er full ástæða til að ætla að þetta auki verulega atvinnuþátttöku aldraðra og muni þar af leiðandi skila ríkissjóði auknum tekjum á móti.

Svo tek ég undir orð hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, það er auðvitað þannig með þá tekjuhæstu í samfélaginu að lífeyristekjur viðkomandi skerða bætur frá almannatryggingum en ekki atvinnutekjur. (Gripið fram í.) Ég held að við þurfum ekkert að hafa áhyggjur af einhverju hátekjufólki sem fái stórauknar bætur frá almannatryggingum vegna þessa. Þetta kemur fyrst og fremst þeim tekjulægstu til góða.