148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

fátækt á Íslandi.

[14:16]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hvernig skyldi verðmætasköpunin sem hæstv. fjármálaráðherra talaði um skiptast? Síðan 1980 hefur ríkasta 1% í heiminum tekið til sín 28% af allri verðmætasköpuninni. Sama þróun, þó kannski ekki jafn öfgakennd, er líka á Íslandi. Hagdeild ASÍ og greiningar Stefáns Ólafssonar hafa sýnt að skattbyrði frá aldamótum hefur færst frá ríkasta fólkinu yfir á fólk með lágar og millitekjur.

Hvernig skyldi birtast sá skýri vilji sem hæstv. ráðherra talar um að sé í stjórnarsáttmálanum til að slá á þennan ójöfnuð? Í nýjum fjárlögum eru aldraðir, öryrkjar, ungt barnafólk og 6.000 börn á Íslandi algjörlega skilin eftir á fordæmalausu hagvaxtarskeiði. Ríkisstjórnin ætlar ekki að beita skattkerfinu til að jafna kjör fólksins í landinu og afleiðingin er einföld: Vaxandi ójöfnuður. Það á ekki að skerpa á þrepaskiptingu skattkerfisins, ekki leggja á auðlegðarskatt, það er ekki boðaður sanngjarnari arður af auðlindum og boðaður fjármagnstekjuskattur er með þeim hætti að til greina kemur að fjármagnseigendur gætu jafnvel varið sig gegn verðbólgu, nokkuð sem venjulegt launafólk getur ekki. Í fjárlögum næsta árs er gefinn eftir 21 milljarður kr. sem hefði getað nýst í baráttunni gegn fátækt.

Í stjórnarsáttmálanum er líka talað um frekari eftirgjöf síðar á kjörtímabilinu, lækkun neðra þreps tekjuskattsins sem mun gefa þeim sem hér stendur þrisvar sinnum meira í hverjum mánuði en þeim sem lifa á lægstu laununum. Nei, við þurfum að bæta kjör þessa fólks. Nógir peningar eru til.

Ég spyr, herra forseti: Er þessi ríkisstjórn ekki undir forsæti sósíalista?