148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

mannvirki.

4. mál
[15:17]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Bergþór Ólason) (M):

Virðulegur forseti. Til að svara þeim spurningum eins og ég er fær til varðandi það sem hv. þingmaður spyr um kom fram fyrir nefndinni að þessi sjónarmið hefðu verið skoðuð í ráðuneytinu en leiðin sem var ákveðið að fara er í rauninni þannig útfærð að þau fyrirtæki sem veita þessa þjónustu, m.a. það sem þú nefndir hér áðan, Frumherji er sambærilegt, Efla, Verkís og fleiri, hafa unnið þessi verkefni fyrir byggingarfulltrúaembættin víða um land, sérstaklega úti á landsbyggðinni. Ef ég skil málið rétt verður ekki röskun á því að þau geti sinnt þeim störfum áfram.

Hvað faggildinguna sjálfa varðar hefur það mál ekki unnist hraðar en þetta í Mannvirkjastofnun. Niðurstaða nefndarinnar eftir að fulltrúar ráðuneytis höfðu komið þar fyrir varð að útfæra málið með þessum hætti. Þannig væri svigrúm allra þeirra sem hafa veitt þessa þjónustu tryggt áfram þar til öll skilyrði reglnanna hafa verið uppfyllt og faggilding verður þá veitt á grunni þeirra reglna sem settar verða. Ég vona að þetta svari spurningu hv. þingmanns.