148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

5. mál
[15:31]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Bergþór Ólason) (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví fyrir spurningarnar og reyni að svara þeim sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar

Ef ég skil áhyggjur þingmannsins rétt lúta þær fyrst og fremst að því að ofanflóðasjóður lendi í vandræðum í framtíðinni með að standa undir þeim lögbundnu skyldum sem á honum hvíla. — Akkúrat, þá skildi ég hann rétt. Bókfært eigið fé sjóðsins er milli 14 og 16 milljarðar, ég er ekki með töluna alveg á takteinum, en frá hruni hefur þetta snúist um fjárheimildahlutann þar sem útgjaldahliðin hefur verið mun nettari en tekjuhliðin.

Þær heimildir sem hér um ræðir eru á þessu ári 110 milljónir þannig að af stærð sjóðsins eru þetta ekki mjög háar tölur. Eins og kom fram í nefndarálitinu er samt full ástæða til að ramma það inn sérstaklega að rannsóknir sem þessar hafi sína sjálfstæðu fjármögnun. Það mun væntanlega tengjast vinnu við til að mynda hamfarasjóðinn sem hv. þm. Ari Trausti ræddi áðan. Ég held að ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af því í fyrirsjáanlegri framtíð að verkefni sjóðsins sem eru tæk til framkvæmda höggvi nærri eigin fé sjóðsins.

Aftur á móti snýst þetta miklu frekar um útgjaldaheimildirnar og á þeim tökum við árlega. Til að mynda hafa ekki komið fram neinar óskir, að ég best veit, um auknar fjárheimildir til framkvæmda sem nú er verið að veita fjárveitingar til þannig að ég held að ekki sé ástæða til að hafa miklar áhyggjur hvað akkúrat þetta varðar.