148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

vaxta- og barnabætur.

[10:57]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vitnaði hér áðan til orða hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur í nefndaráliti hennar þar sem hún hafði áhyggjur af því að hagstjórn væri orðin óábyrg með þeim miklu útgjöldum sem verið væri að auka við í fjárlagafrumvarpinu. (ÞorstV: Þessar tillögur voru fjármagnaðar.) Hér er verið að hækka barnabætur. Verið er að hækka barnabætur frá því frumvarpi sem hv. þingmaður stóð að sem hæstv. félagsmálaráðherra fyrir nokkrum mánuðum, þannig að hv. þingmaður ætti að geta glaðst yfir því að það er þó verið að hækka barnabætur frá hans eigin tillögu, nokkurra mánaða gamalli. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður nefnir vaxtabætur. Við hv. þingmaður áttum ágætt samtal í fjölmiðlum um þær í haust þar sem hann vitnaði til nákvæmlega þess sem ég hef sagt hér, að hann væri búinn að setja af stað vinnu við að endurskoða þessi kerfi, sem er gott. Ég tek undir það með hv. þingmanni og hann ætti að vera ánægður með að við höldum áfram því sem hafið var á þeim tíma. En er ekki hv. þingmaður sammála mér um að mikilvægt sé að endurskoða húsnæðisstuðninginn sem hefur verið gagnrýndur á undanförnum árum fyrir að vera allt of brotakenndur og að nýtast ekki þeim sem skyldi? Það hefur verið niðurstaðan og á það hefur verið bent ítrekað, til að mynda í vinnu þingnefnda um þessi mál, að húsnæðisstuðningur hins opinbera hafi verið brotakenndur af því að teknar hafi verið upp nýjar aðferðir við húsnæðisstuðning. Við getum rifjað upp skuldaleiðréttinguna, við getum rifjað upp séreignarsparnaðarkerfið, við getum nefnt vaxtabótakerfið, við getum nefnt húsnæðisbótakerfið og leigubótakerfið. Það hefur verið gagnrýnt af þeim sem komið hafa í þingið að stuðningskerfið sé orðið brotakennt og nýtist ekki þeim sem skyldi. Er þá ekki eðlilegt að horfa til þess að við gerum það kerfi heildstæðara þannig að það nýtist best þeim sem mest þurfa á að halda?