148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:42]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér varð heilmikil umræða um sannfæringu og hvort sannfæring manna breyttist við að setjast í ríkisstjórn eða ekki. Og mér sýnist svo vera því að fyrir einungis ári síðan stendur í nefndaráliti Vinstri grænna, við fjárlögin þá, að hækka þurfi barnabætur. Árið þar á undan lögðu Vinstri græn fram breytingartillögur um að hækka barnabætur um 2,4 milljarða. Þá sýndu Vinstri græn í verki að þau vildu hækka barnabætur. Núna, þegar Vinstri græn eru komin í ríkisstjórn, má alls ekki hækka barnabætur. Þá á fátækasta barnafólk landsins að bera ábyrgð á hinum efnahagslega stöðugleika. Ég bið hv. þingmenn Vinstri grænna hér úti í sal að sýna í verki að þið séuð þessi velferðarflokkur sem þið eruð í raun og veru. Greiðið atkvæði með þessari tillögu og þá verður ykkur sómi að.