148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:49]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið talað um góð vinnubrögð við þessa fjárlagaumræðu. Það er vissulega rétt að stjórnarandstaðan hefur lagt sig fram um að greiða götu eins og kostur er. Hér erum við hins vegar af lítillæti okkar að leggja fram breytingartillögur er snúa að vaxtabótum og barnabótum og að tryggja að þessi kerfi viðhaldi þó að lágmarki stuðningshlutverki sínu fyrir tekjulægstu hópa samfélagsins á næsta ári meðan á endurskoðun þeirra stendur.

Það hefur ekki verið minnsta viðleitni af hálfu meiri hlutans í þessum málum að kanna hvað í þessum tillögum felist, kanna hvað væri mögulega hægt að gera til að liðka fyrir framgangi þeirra. Við höfum lagt fram tillögur um fjármögnun þeirra upp á liðlega 3 milljarða sem hafa verið felldar nú þegar af meiri hlutanum, sem snúa að ívilnun til bílaleigna og að snúa frá áformum um að lækka kolefnisgjald frá því sem var í fyrra frumvarpi.

Þetta er bara merki um forgangsröðun þessa meiri hluta og hún er sorgleg.