148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[12:25]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Það er svo með þetta ágæta kerfi sem hefur drabbast niður á undanförnum áratug, undir forystu m.a. Sjálfstæðisflokksins, að einstætt foreldri í hóflegu húsnæði með lágmarkseignarhlut upp á 20% fékk endurgreiddan um þriðjung vaxtakostnaðar síns árið 2007 en fær ekkert í dag út af eignaviðmiðum, af því að á sama tíma og fasteignaverð hefur tvöfaldast hefur eignaviðmiðið lækkað að nafnvirði. Það er alveg augljóst að endurskoðun á þessu kerfi er nauðsynleg og tímabær, en það hefur staðið yfir endurskoðun á húsnæðisstuðningi held ég allar götur frá 2013 hið minnsta. Slík endurskoðun hjálpar fólki ekki við að standa straum af vaxtabyrði sinni á komandi ári. Því segi ég já.