148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[12:48]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér er það minnisstætt í kosningabaráttunni þegar stjórnmálamönnum var raðað upp í einhvers konar línu og spurðir: Ætlar þú ekki alveg örugglega að lækka tryggingagjaldið? Og allir sögðu: Jú.

Ég hef ekki tíma til að fara yfir skondna sögu hvað varðar hugmyndir Pírata í þeim efnum en skemmst er frá því að segja að ekki voru lagðar til breytingar á tryggingagjaldi í okkar tillögum, þannig að ég sit hjá og mér sýnist allur þingflokkurinn minn gera það.

Hins vegar er ég sjálfur hlynntur því að lækka tryggingagjaldið. Það þarf þó að gerast í einhverjum minni skrefum, einfaldlega vegna kostnaðar. Ég skoðaði hvað þetta kostaði vegna þess að (Gripið fram í.) ég var að velta fyrir mér að leggja þetta fram sjálfur. Kostnaðurinn við þessa tillögu er samkvæmt mínum frumstæðu útreikningum 7,4 milljarðar sem er bara aðeins of stór biti. Ef þetta væri eitthvað miklu minna gæti ég hugsanlega verið á græna takkanum, en með hliðsjón af þessu sit ég hjá en ítreka að þetta gjald á að lækka og þegar fólk fullyrðir svona hluti í kosningabaráttu á að (Forseti hringir.) gefa fólki séns á að taka það alvarlega.