148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[18:14]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Það er viðeigandi að halda umræðunni aðeins áfram af því að hún tengist 41. gr. stjórnarskrárinnar sem við erum að fjalla um.

Við náðum ekki að ræða efnislega atriðin í fjáraukalögunum í umræðunni áðan. Mig langaði stuttlega að renna yfir það sem við höfum.

Hér eru nokkur mál, t.d. héraðsdómstólar. Þar er talað um að fjárheimildirnar sem leitað er þar séu vegna millifærslu. Það má millifæra milli málaflokka. Þá datt mér í hug hvort það þyrfti síðan að endurspegla þær millifærslur í fjáraukalögum, hvort það væri eðlilegt. Ef það er eðlilegt er það mjög fínt, þá er heimildin á réttum stað. Þá er búið að gefa heimild til þess að færa á milli. Verið er að nota heimild sem þegar er búið að gefa leyfi fyrir, þó úr öðrum málaflokki. Ráðherra gerir millifærsluna, útskýrir hana og svo er hún raungerð í fjáraukalögum. Þá er það betri meðhöndlun á 41. gr. stjórnarskrárinnar og skýrt að ráðherra hefur heimild til greiðslu.

Í 3. lið er fjallað um stjórnsýslu. Þar er talað um embætti forseta Íslands og að í kjallara gestahúss hafi um árabil gætt raka. Um árabil. En að núna sé nauðsynlegt að bregðast við og fara strax í framkvæmdir. Ég vek athygli á því ákvæði í lögum um opinber fjármál sem segir að það þurfi að vera „ófyrirsjáanlegt“. Ég sé ekki að það sé að neitt óvænt núna, sérstaklega ekki við lok árs, ef þetta hefur verið svona um árabil. Þá er væntanlega byrjað að fara í þessar framkvæmdir. Líklega eru þær bara búnar. Ég veit það samt ekki.

Yfir í utanríkismál. Þar er talað um þróunarsamvinnu vegna stuðnings við Grænland vegna jarðskjálfta. Þar er sérstaklega sagt að ríkisstjórnin hafi samþykkt að fara út í þann aukna kostnað. Ég geri athugasemd við að það falli undir utanríkismál. Þetta gæti alveg eins fallið undir ríkisstjórnarákvarðanir, liðinn sem er á 34. málefnasviði. En af því að þetta varðar Grænland þarf það kannski að fara í utanríkismálin. Hver veit? Þetta er samt athyglisverð staðsetning hvað varðar þessa tvo liði. Við höfum t.d. ekki séð hver staðan er á málefnaflokki um ríkisstjórnarákvarðanir. Hann er ekki hár, um 170–180 milljónir. Þarna fara ekki nema 40 milljónir í stuðning við Grænland. Eflaust eru fleiri ákvarðanir þarna eru undir sem ættu kannski að fara undir liðinn um ríkisstjórnarákvarðanir. Mér finnst eins og hann sé miklu meira notaður en upphæð málefnaflokksins gefur til kynna.

Á málefnasviði 10 er fjallað um réttindi einstaklinga, að þar séu framlög til málefna útlendinga vegna verulegrar fjölgunar umsókna um alþjóðlega vernd. Sú fjölgun var fyrirsjáanleg. Hún var lögð til af hálfu ráðuneytisins strax í desember á síðasta ári. Settar voru fram ákveðnar sviðsmyndir. Ég veit ekki af hverju fjárlög fyrir 2017 endurspegluðu ekki þá upphæð. Nefndin hafði þá eins og núna mjög stuttan tíma til að fara yfir málið, en á sama tíma var nýbúið að samþykkja ný lög um útlendinga þar sem fjölmargar heimildir voru veittar til að fara í kostnaðarsparandi aðgerðir. Upphæðin er það há að hægt væri að fjármagna Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála margfalt. Hægt væri að búa til nokkrar nýjar nefndir til að stytta biðtímann eftir heimildum sem mesti kostnaðurinn snýst um. Spurningin er hvort jafnvel mætti nýta helminginn af þeirri upphæð í að vera einfaldlega með tvær kærunefndir og tvær Útlendingastofnanir til að afgreiða málin hraðar í stað þess að fara í helmingi meira.

Aftur varðandi trúmál, þar er ekkert ófyrirsjáanlegt. Þetta hefur verið gert áður. Algenga setningu má sjá í fjáraukalögunum í stjórnsýslu dómsmálaráðuneytis: Ekki náðist að bregðast við í gildandi fjárlögum. Ég skil ekki hvað það orðalag þýðir. Vissi fólk þá af þessu en náði ekki að vinna það inn í frumvarpið? Er það þá ófyrirsjáanlegt eða hvað? Ég veit það ekki. Mér finnst þetta ekki heppilegt orðalag. Ég sakna þess að það sé útskýrt í hverjum lið fyrir sig hvers vegna ákveðnir málaflokkar eigi að fara í fjáraukalög og hvers vegna ekki.

Í andsvörum áðan vakti ég aðeins athygli á því varðandi samgöngu- og fjarskiptamál að þar er gert ráð fyrir 400 millj. kr. framlagi til að mæta ófyrirséðum kostnaði vegna slipptöku Herjólfs. Við fengum minnisblað sem sundurliðar það aðeins. Þar eru 208 milljónir til að mæta ófyrirséðum kostnaði vegna slipptöku Herjólfs og leigu á ferjum meðan á viðgerðum stendur, en síðan eru 192 milljónir til að mæta kostnaði við vísitölubindingu samninga Vegagerðarinnar vegna styrkja til ferjureksturs. Það eru 4,2% af þeim málaflokki, sem er langt umfram vísitölubindingar. Í svörum ráðuneytisins kom fram að þetta væri uppsafnaður verðbólgukostnaður eða eitthvað því um líkt. Einnig er þar inni ákvörðun um aukinn fjölda ferða, sem er í raun umfram samninga. Það er engin heimild til að fara í slíkt og það er heldur ekki sundurliðað sérstaklega að ástæða hafi verið til þess að sækja auknar fjárheimildir. Það er eitt sem vantar stundum, hvað ef það er einhver milljón hérna eða 500 þúsund kall þarna sem er settur saman við einhvern annan lið, sem afleiðing af því að Herjólfur var lengur í slipp en búist var við, sem er fluttur undir þá fjárheimild? Ég sé t.d. ekki að verðbólgukostnaðurinn vegna þjónustu á almenningssamgöngum geti farið undir þetta 400 millj. kr. framlag til að mæta ófyrirséðum kostnaði vegna slipptöku Herjólfs. Ef það er gjald er fjárheimildin er augljóslega ekki leyfilegt að nýta þá heimild til að fara í einhver önnur verkefni eða til að borga einhvern verðbólgukostnað á almenningssamgöngum annars staðar á landinu.

Ég talaði hérna um landbúnaðinn áðan. Þar er augljóslega ekki farið eftir ákvæðum fjáraukalaga þar sem talað er um að bæta við 665 milljónum. Þá er helst er verið að leggja til 100 milljónir, sem fara að vísu í breytingartillögum niður í 50, til að undirbyggja verkefni á sviði kolefnisjöfnunar, nýsköpunar og markaðssetningar. Aukalega er svo einhver úttekt á afurðastöðvakerfinu. Ég held að það séu ekki verkefni sem þegar sé byrjað á og ekki búið að vinna og þar af leiðandi ekki búið að greiða. Það verður að sækja fjárheimild fyrir fram, býst ég við. Ég veit ekkert um það. En þá á augljóslega að gera þetta á næsta ári. Af hverju er þetta þá ekki í fjárlögum næsta árs? Það má vel vera að sá hluti sem fer í að rétta hlut vegna markaðsbrests hjá bændum eigi vel við fjáraukann en ekki þessi hluti. Þetta er annað dæmi um að hlutum sé klambrað saman í einhverja upphæð sem á að redda í fjáraukalögum, eins og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson og Helgi Hrafn Gunnarsson nefndu hér fyrr í dag. Það er þá frekar til að redda fjárlögum 2018, til að þau líti betur út en fyrri fjárlög. Þá verður millifærsla á upphæðum sem gerir þau aðeins fallegri. Það lítur alla vega þannig út.

Varðandi menningu, listir og íþrótta- og æskulýðsmál þá var talað um Hörpu áðan. Framlag til þess að mæta lausafjárvanda í rekstri. Ég veit ekki heldur hvort það er ófyrirsjáanlegt. Það virðist vera tímabundið að því að viðaukinn er til ársloka 2017, en samningurinn var gerður 2013. Það er svo sem tímabundið en örugglega ekki ófyrirséð því að samkomulagið var gert 2013. Það hefur greinilega vel verið fylgst með stöðu Hörpu sem er, að því er virðist, aðallega vegna miklu hærri fasteignagjalda en gert var ráð fyrir. Þegar þau eru komin inn í myndina eru þau mjög fyrirsjáanleg, miklu hærri en gert var ráð fyrir. Þá er bara spurning hvenær það datt inn í formúluna og hversu ófyrirsjáanlegt það er að lausafé vanti í reksturinn.

Að lokum er hér talað um auknar fjárheimildir til máltækniverkefnisins, sem er gott og blessað, en það er upp á 30 milljónir. Ég átta mig ekki alveg á því. Það hlýtur að vera eitthvað sem búið er að gera á árinu og verið er að leita heimilda til eftir á.

Ég hef ekki náð að fara yfir alla liðina mjög vel en tæpi á því helsta. Í kaflanum „Framhaldsfræðsla og menntun óflokkuð á skólastig“ er gert ráð fyrir launa- og verðlagshækkun framlaga sé að hluta til fjármögnuð með hækkun á rekstrartekjum. Það eru fjárheimildir Samskiptastöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Kjarasamningar gerðu að verkum að farið var umfram fjárheimildir. Samt er gert ráð fyrir því, alla vega í umsögnum um fjáraukann, að verið sé að geyma varasjóðina til þess að hafa upp í kjarasamninga ef þeir fara fram yfir. Það hefði frekar átt að detta inn í varasjóðina.

Í umfjöllun um almenna sjúkrahúsþjónustu er talað um að mæta kostnaði við uppgjör eldri skulda vegna lífeyrisskuldbindinga. Það gefur mér strax vísbendingu um að það sé ekki ófyrirséð, hvað þá tímabundið. Það hlýtur að hafa áhrif næstu árin. Það eru skýrar vísbendingar í öllum málum, mjög mörgum atriðum, um að þau falli ekki undir skilyrði um fjáraukalög. Sumt fellur þar undir og sumt á að vera í eðlilegu ferli um fjárlög.

Það eru nokkur fleiri atriði hér, eins og lyfin, það er ekkert ófyrirséð þar. Það er ekkert ófyrirséð varðandi hjálpartækin. Helstu tegundir frávika frá lögum um opinber fjármál um hvenær fjárauki eiga við eru líklega komin í þessari yfirferð. En ég sakna þess að við höfum ekki haft tíma til að klára efnislega yfirferð yfir hvert atriði og verð bara að láta þar við sitja að þessu sinni. Það þýðir væntanlega í afgreiðslu þessa máls að einhverjir þingmenn verða að axla þá ábyrgð að samþykkja fjáraukafrumvarpið eins og það er. Ég treysti mér ekki til að standa í vegi fyrir því af því að ég hef ekki getað skoðað hverja heimild fyrir sig það gaumgæfilega að ég viti hvort hún á við um fjáraukalög eða ekki. Það eru þó nokkrar greinar sem ég held að ég geti alveg örugglega fullyrt að eigi ekki að vera þarna og ég held að það komi bara í ljós í atkvæðagreiðslu hvernig það gengur.