148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að endurtaka þá ræðu sem ég hélt hér við 2. umr., það er tiltölulega skammt síðan við áttum efnislega umræðu um þetta frumvarp. Ég ætla engu að síður að minnast á nokkur atriði, sem ég vil draga fram við 3. umr. fjárlaga, sem eru gagnrýnisverð.

Við í Samfylkingunni höfum gagnrýnt þetta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur harðlega. Við teljum að það beri vott um svik við kjósendur og algjört metnaðarleysi í velferðarmálum. Þetta er í engu samræmi við það sem flestir flokkar hér á þingi ef ekki allir sögðu um stórsókn í velferðar- og menntamálum. Enda kom það á daginn að langflestir hagsmunaaðilar sem komu á fund nefndarinnar voru mjög neikvæðir í garð þessa frumvarps. Það var enginn ánægður með frumvarpið, það er ekki í samræmi við það sem lofað var fyrir einungis sjö til átta vikum.

Við í Samfylkingunni höfum borið frumvarpið saman við fjárlagafrumvarp þeirrar ríkisstjórnar sem sprakk í haust. Við teljum það vera réttmætan og sanngjarnan samanburð því að þarna voru kosningar á milli. Stjórnmálaflokkarnir, ekki síst Vinstri grænir, lögðu stefnumál sín á borð kjósenda og vildu laga og gjörbreyta frumvarpinu sem fráfarandi ríkisstjórn lagði fram í september. Það frumvarp var slæmt að þeirra mati og stór orð féllu um það frumvarp; hægri sveltistefna, ömurlegt o.s.frv. Gott og vel. Hvað gerðist síðan? Vinstri grænir fara í ríkisstjórn, semja um að fá þrjá ráðherrastóla og ná einungis tveggja prósentustiga breytingu á þessu skelfilega frumvarpi sem þeir gagnrýndu svo hatrammlega fyrir nokkrum vikum.

Það er enginn árangur. Ég veit að undan þessari gagnrýni svíður en hún er engu að síður réttmæt. Árangurinn er ekki í samræmi við það sem Vinstri grænir lofuðu og er gríðarleg vonbrigði, þegar sósíalisti er loks orðinn forsætisráðherra þjóðarinnar. Þetta fjárlagafrumvarp Katrínar Jakobsdóttur er 98% eins og það frumvarp sem fráfarandi ríkisstjórn lagði fram.

Í meðförum fjárlaganefndar tekur frumvarpið einungis smávægilegum breytingum, 0,2% nánar tiltekið. Þannig að heildarbreytingin á þessu vonda frumvarpi er 2,2%. Höldum því til haga. Ég veit að sjálfsögðu að ekki er hægt að gera allt núna, ég átta mig alveg á því. En það væri hægt að gera svo miklu meira. Svigrúmið er núna. Það er uppsveifla í samfélaginu og enn skiljum við eftir þessa hópa sem við teljum okkur vera málsvara fyrir, aldraða, öryrkja, fátækt barnafólk o.s.frv. Það fer ekki allt á hliðina — þingmenn vita það — þó að við treystum tekjuleiðirnar, eins og Samfylkingin hefur lagt til, eða minnkum afganginn ef tekjuleiðin er of erfið fyrir flokkana hvað þetta varðar.

Það eru pólitísk tíðindi að fjalla um hvernig Vinstri grænir hafa greitt atkvæði með breytingartillögu minni hlutans hér í dag og síðan fyrir jól. Það eru stórpólitísk tíðindi að mínu mati að sjá hvern þingmanninn á fætur öðrum hjá Vinstri grænum sem ýtir á nei-hnappinn. Nei, þeir ætla ekki að hækka barnabætur. Nei, þeir ætla ekki að hækka vaxtabætur. Þeir ætla ekki að setja krónu meira í fæðingarorlofið, ekki krónu meira í húsnæðismálin. Ekkert er tekið á misskiptingunni. Þeir vilja ekki einu sinni setja nauðsynlega peninga í Landspítalann svo að hann geti haldið í horfinu, haldið sjó. Við erum ekki að tala um neina innspýtingu, þeir treysta sér ekki einu sinni til að setja það í reksturinn sem Landspítalinn kallar eftir til þess eins að halda óbreyttri starfsemi.

Hið sama má segja um heilbrigðisstofnanir úti á landi. Forsvarsmenn þeirra sögðu við fjárlaganefnd að það vantaði u.þ.b. milljarð til að halda óbreyttri starfsemi svo að ekki þyrfti að loka deildum og segja fólki upp. Fjárlaganefnd bætti 400 milljónum við. Hefði það drepið einhvern í þessum sal ef við hefðum bætt við 600 milljónum í viðbót? Að sjálfsögðu ekki. Þannig að hér birtist skýr pólitík þess efnis að stjórnarflokkarnir eru ekkert að meina það sem þeir sögðu varðandi innspýtingu í velferðarmálin. Þess vegna er þetta frumvarp svo mikil vonbrigði.

Landssamtök eldri borgara og öryrkja hafa lýst mikilli óánægju með frumvarpið. Af hverju gerum við ekki aðeins betur við þennan hóp en raun ber vitni hér?

Forsvarsmenn framhaldsskólans komu á fund fjárlaganefndar og sögðu: Framhaldsskólarnir eru komnir að þolmörkum. Ókei, af hverju mætum við því ekki? Þeir eru að kalla eftir 400 milljónum. Það eru ekki það háar upphæðir að við getum ekki mætt þessum stofnunum sem eru að kalla á athygli og fjármuni frá hinu opinbera.

Ríkisstjórnarflokkarnir voru að stæra sig af því í morgun að þeir ætli ekki að varpa efniskostnaði á vettvangi framhaldsskólanna yfir á nemendur. En ég hef ekki enn séð breytingartillögu frá meiri hlutanum þar sem þeir ætla að fjármagna þá tillögu sem þeir drógu til baka hér í morgun sem var upp á 300 milljónir. Stjórnarflokkarnir hafa einmitt verið að stæra sig af því að þeir hafi verið að setja 400 milljónir nettó aukalega í framhaldsskólana. Ef ekki kemur breytingartillaga frá meiri hlutanum þurfa framhaldsskólarnir að sama skapi að dekka 300 millj. kr. kostnað. Ég vona svo sannarlega að meiri hlutinn fari ekki að nota fjárauka næsta árs, eftir alla þá umræðu sem hér hefur átt sér stað um skýran vilja allra þingmanna, sem tóku þátt í henni, til að misnota ekki fjáraukann með þeim hætti sem við höfum verið að fjalla um í allan dag.

Samfylkingin og fleiri flokkar lögðu fram metnaðarfullar tillögur við 2. umr. um að setja nauðsynlega fjármuni í þessa lykilþætti, þar á meðal í stórsókn gegn ofbeldi til að bregðast við þeim vanda sem #metoo-byltingin hefur varpað ljósi á, á ástand sem er ekki ásættanlegt. Það var tillaga sem Vinstri grænir felldu rétt fyrir jól. Við vorum að kalla eftir 800 milljónum í viðbót til að fjölga lögreglumönnum og bæta meðferð kynferðisbrota í samfélaginu. Aftur: Þessi upphæð hefði ekki sett neitt á hliðina. Ef við tökum þetta allt saman þá eru þetta um 18 milljarðar sem hægt væri að dekka með þeim tekjum sem ríkisstjórnin kýs og kaus að afsala sér, hvort sem litið er til kolefnisgjaldsins eða aukinna tekna af ferðamönnum. Auðvitað er hægt að fá meiri tekjur af auðlindunum okkar, auðlegðarskatturinn á að sjálfsögðu að vera á borðinu o.s.frv. Tekjuleiðirnar eru svo sannarlega fyrir hendi þannig að hægt hefði verið að mæta þessari innspýtingu í þessi nauðsynlegu velferðarmál án þess að minnka afganginn um krónu, ef ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefði einhvern dug í sér til að treysta tekjugrunna ríkisins einmitt á hátindi uppsveiflunnar. Það ber að gera það. Það er ábyrg efnahagsstefna að treysta á tekjugrunna ríkissjóðs þegar uppsveifla er í hagkerfinu eins og nú er.

Þjóðin hefur verið að kalla eftir þessari innviðauppbyggingu. Það er þverpólitísk samstaða um að setja meiri pening t.d. í Landspítalann og heilbrigðisstofnanir, í stórsókn gegn ofbeldi, í barnabætur, í vaxtabætur. En af hverju er það ekki gert?

Breytingartillagan sem við leggjum fram, og er í samræmi við breytingartillögu við bandorminn í dag, er um 1,5 milljarða í barnabæturnar. Efnislega er það sama tillaga og var rædd hér í morgun. Þetta mundi tryggja að barnabætur mundu ekki skerðast hjá þeim sem hafa lágmarkslaun. Ég ætla ekki að endurtaka þessa umræðu hér, en 1,8 milljarðar er lægri upphæð en það kostaði ríkissjóð þegar þingmenn Vinstri grænna kusu að hækka ekki kolefnisgjaldið eins og til stóð. Sú aðgerð kostaði 2 milljarða. Ef Vinstri græn hefðu treyst sér til að hækka kolefnisgjaldið, þessi græni flokkur, eins og til stóð, hefðum við getað fjármagnað þessa breytingartillögu sem lýtur að því að fólk á lágmarkslaunum fái óskertar barnabætur.

Við erum ekki að tala um neinn pólitískan ómöguleika. Við erum að tala um það sem er gerlegt og mögulegt ef pólitískur vilji væri fyrir því. Verkin tala hér eins og annars staðar og það er augljóst að það er einfaldlega ekki pólitískur vilji hjá Vinstri grænum — ég er að einbeita mér að þeim, ég hef trú á þeim flokki þó að hún fari nú minnkandi — fyrir því að setja pening í barnabætur, í vaxtabætur, í húsnæðismálin, í fæðingarorlofið, í Landspítalann, í heilbrigðisstofnanir úti á landi o.s.frv.

Ég hef spurt vini mína í Vinstri grænum: Til hvers var þá barist? Til hvers voru hv. þingmenn í kosningabaráttu að tala við þjóðina, tala um þessa nauðsynlegu innviðauppbyggingu? Í dag er tækifærið hjá hv. þingmönnum Vinstri grænna að sýna í verki að þeir eru velferðarflokkur sem er annt um fátækt fólk og annt um að allir hafi jöfn tækifæri. En við sáum þessi verk ekki tala hér.

Aftur ítreka ég að tekjuleiðirnar eru fyrir hendi. Það eru næg tækifæri til að fara í þær aðgerðir sem Samfylkingin var að kalla eftir. Þess vegna er þetta frumvarp svo gríðarleg vonbrigði. Ég vona að sú umræða sem á sér stað hér nái að enduróma út í samfélagið. Við erum í pólitík af hugsjón. Við erum í pólitík vegna þess að við náum árangri. Við viljum gera gott samfélag betra. Samfélagið er ekki gott á meðan við höfum 6.000 fátæk börn. Samfélagið er ekki gott þegar fólk sem er undir lágmarkslaunum fær ekki óskertar barnabætur. Samfélagið er ekki gott þegar við sjáum að öryrkjar, 19.000 einstaklingar í þessu samfélagi, líða skort ár eftir ár.

Halda hv. þingmenn að við munum laga þeirra hag, mæta þeim áhyggjum sem þessi hópur hefur, þegar niðursveiflan hefst? Nei, að sjálfsögðu ekki. Því að nú er tækifærið hjá hv. þingi að standa við stóru orðin og tryggja að það að vera öryrki eða að eldast á Íslandi eigi ekki að þýða fátækt. Það er óþarfi að hafa samfélagið með þessum hætti. Við þurfum að stuðla að jöfnuði og jöfnum tækifærum.

Ég gat um það í ræðu minni við 2. umr. þessa máls að misskiptingin er mikið vandamál. Hér heyri ég aftur og aftur frá mörgum þingmönnum að tekjujöfnuðurinn sé bara ansi mikill á Íslandi. Verið ekki að kvarta. Gini-stuðullinn er tiltölulega hagstæður. Jú, tekjujöfnuður á Íslandi er tiltölulega mikill þó hann kannski fari vaxandi. Við þurfum að hafa í huga að við erum oft að tala um frekar gamlar tölur þegar við erum með OECD-samanburðinn. En lítum á eignastöðuna. Þar er áhyggjuefnið. Hvernig er jöfnuðurinn þegar litið er til eigna? 5% af ríkustu landsmönnum eiga næstum því jafn mikið af hreinni eign, eigið fé, og hin 95%. Þetta er ekki samfélag jafnaðar eða jafnra tækifæra.

Stækkum aðeins hópinn. Tökum 20% af ríkustu einstaklingunum. Þau eiga 90% af hreinni eign þessa samfélags, samkvæmt skattframtölum. Af hverju notum við ekki skattkerfið til að vinna á þessum ójöfnuði? Ójöfnuður er vondur fyrir hagvöxt. IMF og hagfræðingar hafa bent á það að ójöfnuður og misskipting er vond. Brauðmolakenningin lifir ágætislífi í sumum stjórnmálaflokkum, en það eru allir alvöruhagfræðingar búnir að afskrá hana.

Við þurfum að stuðla að auknum jöfnuði, auknum jöfnuði í tækifærum. Þannig búum við til verðmæti. Þannig búum við til ákjósanlegt og spennandi land þar sem unga fólkið okkar sér akk í því að starfa og leggja sitt af mörkum, hafi ástríðu fyrir því að stofna hér fyrirtæki og búa til verðmæti. En á meðan staðan er svona búum við við samfélag þar sem lítil elíta býr við allt annað regluverk, annað skattumhverfi og annað slíkt — og ótrúlegan skilning ríkisstjórnarinnar um að ekki megi auka byrði þessa hóps. Þetta er ótrúlegt.

Við höfum séð á alþjóðavísu að auðmenn úti um allan heim kalla eftir réttlátara skattkerfi. Af hverju tökum við ekki þátt í þeirri breytingu? Af hverju gerum við skattkerfið ekki allt réttlátara? Við höfum tækifæri til þess. Enn og aftur strandar þetta á pólitískum vilja. Það þýðir ekki alltaf að fela sig bak við það að við gerum þetta bara einhvern tímann seinna. Hafið nú trú á okkur, gerum þetta bara seinna. Nú er tækifæri. Af hverju þurfa aldraðir og öryrkjar og barnafjölskyldur alltaf að bíða ár eftir ár? Af hverju þarf þetta að vera svona flókið?

Ég vona að hv. þingmenn, þó að ég hafi enga trú á því, líti breytingartillögu minni hlutans, sem lýtur að því að hækka barnabætur og vaxtabætur, jákvæðum augum. Þetta er síðasta tækifærið. Þetta er síðasta tækifærið hjá þingmönnum Vinstri grænna til að sýna að hann er sá velferðarflokkur sem hann kallaði sig a.m.k. fyrir kosningar.