148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:48]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er gaman að heyra sömu ræðuna oft og þessa ræðu er ég búinn að heyra núna þrisvar. Ég vil spyrja hv. þingmann; hækkun kolefnisgjalds, á hverjum heldur þingmaðurinn að það lendi? Lendir það ekki bara á almenningi? Auðlegðarskatturinn, á hverjum lenti hann aðallega síðast þegar hann var hér frá 2010–2013?

Ég vil spyrja hv. þingmann, af því hann er nú löglærður líka, hvort hann trúi því að sami auðlegðarskattur og var lagður á hér á sínum tíma myndi ganga við þær aðstæður sem eru í samfélaginu í dag með hliðsjón af dómi Hæstaréttar á sínum tíma, ef hann hefur þá lesið hann.

Ég held að það hafi engan tilgang að koma hingað í ræðu og tala um — þó að það sé útlent orð, ég nota sama orðið og hv. þingmaður, „passion“, til að stofna hér fyrirtæki, freista gæfunnar. Það er engin passion og verður engin passion í íslensku samfélagi til þess að gera það komi skattatillögur hv. þingmanns og hans flokks til framkvæmda. Hér er jöfnuður meiri en annars staðar og hvergi meiri sennilega. Þegar maður hlustar á þessa ræðu aftur og aftur; milljarð hér og milljarð þar, ekkert af þessu setur ríkissjóð á hausinn, en þegar við tökum alla þessa milljarða saman þá verður rekstur ríkissjóðs ekki mjög góður.