148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa prýðilegu jafnaðarmannaræðu, hún minnir á hvaðan hv. þingmaður kemur eins og reyndar fleiri í þessum sal. Ég get svo sem upplýst það enn og aftur og sennilega hátt í hundraðasta skipti að ég kalla sjálfan mig sósíaldemókrata og aðhyllist í grunninn sömu hugmyndafræði og mér heyrist hv. þingmaður tala um.

Það sem ég er að velta fyrir mér úr ræðu hv. þingmanns er hvernig hv. þingmaður myndi vilja forgangsraða öðruvísi ef hann kæmist í þá stöðu að vera skyndilega í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og stæði frammi fyrir því að gera fjárlög sem þyrftu að standast þá prófraun að hv. þingmaður gæti staðið hér og varið það gagnvart öðrum vinstri flokkum, svo sem Samfylkingunni. Væri ekki rökréttast að slík ríkisstjórn, þar sem svokallaðir vinstri menn ynnu með svokölluðum hægri mönnum, myndi leggja sig fram við að búa til fjárlög sem sýndu strax að það skipti máli að hún væri við stjórnvölinn? Ég heyri það svolítið frá þingmönnum meiri hlutans að seinna verði eitthvað gert, þetta sé í endurskoðun og guð má vita hvað. En mér finnst hins vegar vanta áhersluna á það hvað eigi að bæta sem er ekki hægt að bæta núna, sérstaklega miðað við tillögurnar sem hafa komið frá minni hlutanum, þar á meðal flokki hv. þingmanns, um barnabætur og fleira. Hverjar ættu áherslurnar að vera ef við setjum okkur í þá stöðu?

Hérna erum við náttúrlega með vinstri flokk, Vinstrihreyfinguna – grænt framboð, sem að mínu mati er æruverðugur flokkur. Það er fólk í þessum flokki og ríkisstjórn sem er gott fólk sem vill samfélaginu vel. Ég spyr því: Hvað ef annað gott fólk sem ég veit um hér í þessum þingsal kæmist til valda, hvernig myndi það forgangsraða? Hvernig væri hægt að standa að fjárlagafrumvarpi þannig að sómi væri að, miðað við þá (Forseti hringir.) stefnu sem hv. þingmaður tjáði?