148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:28]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fyrir liggja margvíslegar tillögur Samfylkingarinnar í þeim efnum, hvernig við vildum forgangsraða. Það sem ég hef talað mjög fyrir er að veita barnafjölskyldum aukinn stuðning, ungum fjölskyldum sem eru að koma undir sig fótunum í lífinu. Við reyndum það með okkar tillögum í morgun, þeim var því miður ekki nægilega vel tekið. Við munum reyna áfram.

Hvað varðar heilbrigðisþjónustuna þá er það auðvitað ekki einfaldur málaflokkur, það viðurkenni ég. Hæstv. ráðherra á mikið verk fyrir höndum sem ég veit að hún mun rækja vel. Að móta stefnu í málaflokknum á að vera algert forgangsatriði. Síðan það að við reynum að vega og meta með vönduðum hætti hvað kostar að starfrækja þjónustuna á hinum ýmsu stigum í kerfinu. Það vitum við ekki almennilega í dag. Við vitum það eitt að það er ekki endilega ódýrast að veita læknisþjónustu og gera skurðaðgerðir bara á Landspítala. Það eru margar aðgerðir sem hægt er að gera annars staðar og nýta betur viðbúnað hins opinbera. En áherslur okkar hafa auðvitað komið fram almennt í margvíslegum tillögum sem Samfylkingin hefur lagt fram varðandi börn, öryrkja og eldri borgara. Þar hefðum við viljað taka miklu fastar á án þess að setja allt á annan endann.