148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:20]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessar andríku hugleiðingar um loforð og hlutverk stjórnmálamanna.

Það er vissulega svo að maður sér stundum stjórnmálamenn standa og reyna að æpa sem hæst og hafa sem fegurst loforð á boðstólum, síðan sér maður þessa sömu stjórnmálamenn hér í þingsal reyna af fimi að snúa sig út úr þessum loforðum sínum og koma sökinni — það er spilaður hér stundum einhvers konar Svarti-Pétur þar sem Svarti-Pétur er látinn ganga og svo situr einhver einn vesæll stjórnmálamaður eða stjórnmálaflokkur uppi með þann Svarta-Pétur að hafa ekki náð að uppfylla loforð einhvers annars aðila sem jafnvel var ævinlega fullkomlega óraunhæft.

Eins og ég sagði áðan tel ég að stjórnmálin eigi að snúast um grundvallaratriði og grundvallarsýn á æskilega skipan mála í samfélaginu og grundvallarsýn á það hvernig við deilum annars vegar gæðunum og hins vegar byrðunum í samfélaginu.