148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:22]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni fyrir ræðu hans, mjög fína ræðu. Hann talaði um loforð og vitnaði í ljóð eftir Sigurð Pálsson. Þá datt mér í hug maður sem ég þekkti, sem er nú fallinn frá, hann lofaði aldrei neinu og ef hann var beðinn um eitthvað þá byrjaði hann alltaf á að segja nei, til þess að hann ætti já-ið inni.

Þingmaðurinn talaði um afnám virðisaukaskatts á bækur og við í Miðflokknum höfum talað fyrir því líka. Þegar maður fer að skoða þetta mál þá er þetta ekki stór peningur í samhengi ríkisfjármálanna, 350 milljónir eða svo sem það myndi kosta. En það er erfitt að gefa út bækur, bækur eru orðnar dýrar. Maður hefur heyrt að margir útgefendur eru að gefast upp, þeir eru farnir að láta prenta bækur úti. Við sem köllum okkur bókaþjóð, okkur fer hnignandi hvað það varðar. Mig langar að spyrja þingmanninn hvað hann telur hanga þarna á spýtunni, þ.e. að þetta loforð skuli ekki ganga upp.

Og hvað með iðnnema? Við höfum talað fyrir því að fá það sérmerkt í fjárlögunum, en það virðist ekki vera hægt. Þá spyr ég líka, þó að við séum líka báðir í stjórnarandstöðu: Hvað heldur hv. þingmaður að geti hangið þar á spýtunni?