148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:27]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta svar. Þetta eru náttúrlega mjög skrýtnir tímar til að samþykkja fjárlög. Ég tek undir það, sennilega er það partur af svarinu, þetta er ekki að koma núna en vonandi seinna.

Þingmaðurinn minntist á kolefnisskattinn. Ég hef verið að kynna mér sögu rannsókna á losun kolefnis út í andrúmsloftið og niðurstöður eru frekar misjafnar. Það var verið að tala um bifreiðaskattinn áðan og mengun frá bílum. Ég sá skífurit sem sýnir að mesta losunin er frá framræstum jörðum, um 40–50%, en bílamengunin er ekki nema 4–5%, þetta er síðan 2015. Mér þótti þetta mjög merkilegt miðað við alla þá umræðu sem er í gangi um mengun af völdum bíla — og sannarlega eigum við að stuðla að því að mengun af þeim verði minni. En hefur þingmaðurinn séð þetta skífurit? Í fyrirspurn til ráðherra árið 2015 var slíkt skífurit lagt fram.