148. löggjafarþing — 12. fundur,  30. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[00:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það tekur mig lengri tíma að komast upp í pontu þegar ég þarf að greiða atkvæði í stólnum, það er svo löng leið.

Þessi breytingartillaga snýst um að fullfjármagna varasjóði heilbrigðiskerfisins eins og það leggur sig. Við erum einmitt búin að tala um fjáraukalagafrumvörpin hérna og hvers konar rugl þau eru og að það eigi að grípa til varasjóða áður en allt um þrýtur og þarf að fara í einhver fjáraukalög. Það liggur í rauninni í augum uppi að varasjóður þarf að vera til staðar.

Fyrst forgangurinn snýst um heilbrigðiskerfið er augljóst að það ætti bara að byrja á að fjármagna varasjóði heilbrigðiskerfisins eins og það leggur sig. Við getum efast um að við náum því að vera á núllinu, við höfum séð greiningar sem segja að við endum í mínus í rekstri, og þá þurfa a.m.k. varasjóðir að vera til staðar til að grípa til.

Mér finnst þetta mjög hógvær breyting. Það er ekki verið að blása út rekstur heilbrigðiskerfisins, heldur einfaldlega verið að hafa öryggisgrindina þarna til staðar ef svo kemur upp, t.d. í lyfjum og lækningavörum (Forseti hringir.) sem hafa farið langt fram úr á undanförnum árum.