148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[15:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að koma upp og ræða við hæstv. forsætisráðherra um sjúkrahúsmál eða spítala en ég ætla að halda áfram með það mál sem þeir sem hér hafa talað á undan hafa rætt um, þ.e. þá staðreynd að Hæstiréttur hefur tvisvar fellt dóm yfir hæstv. dómsmálaráðherra og nú spyr ég enn einu sinni — mér er alveg sama hvað það er, eitt er væntanlega nóg — hæstv. forsætisráðherra kemur sér hins vegar algjörlega undan því að ræða það mál, vísar nú á stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í fyrsta lagi: Eru ráðherrar hafnir yfir lög? Þurfa ráðherrar ekki að fara að lögum landsins? Í öðru lagi: Ef dómur fellur á ráðherra, á hann að axla ábyrgð með einhverjum hætti? Ef ekki, af hverju ekki?

Ef það er þannig að ráðherrann á að axla ábyrgð, hvernig á hann þá að axla ábyrgð? Skiptir brotið máli? Skiptir máli hver á í hlut? Eða hvernig getur hæstv. ráðherra staðið hér frammi fyrir þingheimi og þjóðinni allri og látið í raun eins og það skipti ekki máli að dómsmálaráðherra í ríkisstjórn hennar hafi verið dæmdur af Hæstarétti?