148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

geðheilbrigðismál.

[13:36]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt, sem kemur fram í hennar máli, að geðheilbrigðismálin eru sannarlega í brennidepli. Það gildir ekki bara um ríkisstjórnarflokkana heldur held ég að við séum öll sammála um að þessi málaflokkur þarf að fá meiri þunga í allri umræðu og auðvitað ekki síst áherslu á vegum stjórnvalda.

Af þeim sökum hef ég valið að leggja sérstaka skýrslu fyrir Alþingi og ræða hana hér í febrúar um geðheilbrigðismál almennt.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um tiltekið úrræði sem hefur verið í boði hér á höfuðborgarsvæðinu, Geðheilsa – eftirfylgd og Hugarafl. Því er til að svara að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur fengið það verkefni, í samræmi við geðheilbrigðisáætlun, að auka teymisvinnu í geðheilbrigðismálum og fjölga í raun og veru geðteymum á höfuðborgarsvæðinu. Næsta teymi er það sem mun starfa hér á vestur- og miðborgarsvæði.

Þetta leiðir af sér að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur viljað hafa teymin á sínu forræði og vill nýta þá reynslu sem er fyrir hendi hjá Geðheilsu – eftirfylgd inn í þá vinnu. Það samtal er í gangi, eftir því sem mér er sagt af hálfu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og þeirra sem hafa haft forystu um Geðheilsu – eftirfylgd. Það módel er til fyrirmyndar, það er módelið sem stjórnvöld eru að taka sér til fyrirmyndar í raun og veru.

Hvað varðar síðan Hugarafl sem er kannski félagslegi þáttur þessa úrræðis hefur það verið á borði félagsmálaráðuneytisins, sá hluti. Eftir því sem ég best veit hefur verið vel um framtíð þess búið af hálfu félagsmálaráðuneytisins.