148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

geðheilbrigðismál.

[13:38]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og fagna að sjálfsögðu boðaðri skýrslu í febrúar. En mig langar að spyrja, hv. þingmaður kom svo sem aðeins inn á það: Samkvæmt okkar upplýsingum virðast sjúklingar Geðheilsu – eftirfylgdar búa við fullkomna óvissu um hvað verði um þjónustuna við þá. Forstöðumenn Geðheilsu – eftirfylgdar vita ekki einu sinni hvenær hætta á starfsemi, hvað þá hvaða þjónustu og/eða úrræði sjúklingar munu fá eða hvort þeir muni fá hana yfir höfuð.

Slíka óvissu getum við ekki boðið fólki upp á í viðkvæmri stöðu, eða hvað? Hver eru skilaboð ráðherra til þessa fólks?