148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

eftirlit með skipum.

110. mál
[15:15]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um eftirlit með skipum. Með frumvarpinu er lagt til að Samgöngustofa geti lagt stjórnvaldssektir á þá aðila sem brjóta gegn ákvæðum laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim. Markmið laga um eftirlit með skipum er að tryggja öryggi íslenskra skipa, áhafna þeirra og farþega og efla varnir gegn mengun á skipum.

Til að lög nái tilgangi sínum er almennt talið að fylgja þurfi eftir brotum á þeim viðurlögum.

Í lögum um eftirlit með skipum er fyrst og fremst gert ráð fyrir því að brot gegn lögunum séu kærð til lögreglu til rannsóknar. Aðeins er að finna eina tegund stjórnsýsluviðurlaga, það er farbann sem eðli máls samkvæmt kann að vera mjög þungbært úrræði fyrir útgerðir og sjómenn.

Það er almennt talið skilvirkara og kostnaðarminna úrræði fyrir alla aðila að leggja á stjórnvaldssektir en að kæra brot til lögreglurannsóknar og þaðan til dómstóla ef mál fara á þann veg. Kostnaður hins brotlega, t.d. vegna aðstoðar lögmanna, er oftast minni þegar um stjórnsýsluviðurlög er að ræða.

Með frumvarpinu er lagt til að hægt sé að leggja stjórnvaldssektir á einstaklinga sem og lögaðila. Ástæðan fyrir því að hægt er að leggja sekt á einstaklinga er það sérstaka eðli sjóréttarins að þar er ábyrgð skipstjóra og annarra stjórnenda skipa mjög mikil. Stafar það fyrst og fremst af hinni miklu fjarlægð milli skips og útgerðar þar sem útgerð þarf að treysta stjórnendum skips fyrir því sem og áhöfninni.

Við útfærslu frumvarpsins var höfð til hliðsjónar skýrsla nefndar um viðurlög við efnahagsbrotum þar sem ítarlega er farið yfir kröfur sem gera þarf til ákvæða um stjórnvaldssektir ásamt fyrirmyndum úr öðrum lögum, svo sem laga um leigu skráningarskyldra ökutækja, lögum um vátryggingastarfsemi og efnalögum.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu efnisatriðum þessa frumvarps.

Ég legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og til 2. umr.